Náttfatasmánun í Kína

AFP

Yfirvöld í Kína hafa beðist afsökunar á því að hafa smánað fólk fyrir að vera á náttfötunum á almannafæri. 

Embættismenn á vegum ríkisstjórnarinnar í Suzhou, sem er í Anhui-héraði, birtu myndir af sjö manneskjum á náttfötunum og sögðu þetta ósiðmenntaða hegðun. Með myndunum, sem birtar voru á netinu, fylgdi nafn viðkomandi, persónuskilríki og aðrar upplýsingar. Myndirnar eru úr eftirlitsmyndavélum en þær eru úti um allt í Kína og fer hratt fjölgandi. Fyrir tveimur árum voru eftirlitsmyndavélarnar 170 milljónir talsins. Í lok þessa árs er talið að þeim hafi  fjölgað um 400 milljónir. 

Margar þeirra tengjast gervigreind sem þýðir að þær geta fengið nákvæmar upplýsingar um þá sem eru á myndunum. Myndirnar í Suzhou voru birtar í gær af skrifstofu stjórnvalda í borginni. 

Þar kom fram að borgin væri að taka þátt í keppni um siðmenntaðar borgir og að íbúum væri bannað að klæðast náttfötum á almannafæri. Önnur hegðun sem ekki þykir viðeigandi í Suzhou er að liggja á bekk og eins að dreifa auglýsingamiðum.

Myndirnar af fólkinu á náttfötum vöktu litla lukku á netinu. Töldu margir að það væri nákvæmlega ekkert athugavert við það að spranga um á náttfötum á almannafæri og aðrir sögðu að stjórnvöld hefðu brotið á einkarétti fólks.

Svo fór að skrifstofan baðst afsökunar og sagði í færslu frá starfsmönnum hennar að þeir hafi viljað koma í veg fyrir ósiðsamlega hegðun en að sjálfsögðu hefðu þeir átt að vernda friðhelgi einkalífsins. Hér eftir yrðu andlit fólks máð. 

Frétt BBC

mbl.is