Dauðsföll sögð þjóðarskömm

Í hverri viku deyja nokkrir fangar í breskum fangelsum.
Í hverri viku deyja nokkrir fangar í breskum fangelsum. Wikipedia/Lewis Clarke

Dauðsföll í breskum fangelsum eru þjóðarskömm segir framkvæmdastjóri Inquest, Deborah Coles, en í fyrra létust sex fangar og tveir frömdu sjálfsvíg í hverri viku í fangelsum landsins. Samtökin, sem rannsaka dauðsföll tengd lögreglu og fangelsum landsins, segja að fækka verði í fangelsum landsins á sama tíma og ríkisstjórnin heitir því að herða refsidóma.

Inquest segja niðurstöðuna áfall og óásættanlega og benda á að í mörgum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir dauðsföllin. Eins gagnrýna þau háa tíðni sjálfsskaða og vanlíðan meðal fanga. 

Samtökin segja að forsætisráðherra landsins, Boris Johnson, ætti að draga verulega úr fjölda fanga og fjárfesta þess í stað í öðrum afplánunarúrræðum. 

Innanríkis- og dómsmálaráðherrar Bretlands, Priti Patel og Robert Buckland, kynntu í gær áætlun ríkisstjórnarinnar um að þyngja refsingar fyrir alvarlega glæpi, þar á meðal hryðjuverk. Eins er stefnt að því að hætta að veita ákveðnum hópum reynslulausn.

Íhaldsflokkurinn hafði á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar að 100 milljónum punda yrði varið aukalega í að draga úr glæpum innan fangelsa og 10 þúsund ný rými yrðu að veruleika í fangelsum landsins.

Samkvæmt skýrslu Inquest létust 308 í fangelsum í Bretlandi á tólf mánaða tímabili sem lauk í lok september. Þetta eru tæplega tvöfalt fleiri en fyrir áratug. Tilkynnt er um 166 tilvik sjálfskaða á hverjum degi. 

Skýrsla Inquest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert