Verði að bregðast við samkeppni frá Bretum

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu 31. janúar verður að ýta við forystumönnum sambandsins að mati Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Varar Merkel við því í samtali við breska viðskiptablaðið Financial Times að eftir útgönguna úr Evrópusambandinu verði Bretland efnahagslegur samkeppnisaðili sambandsins. Mikilvægt sé að Evrópusambandið verði samkeppnishæfara til þess að bregðast við þeirri áskorun sem felist í útgöngu Bretlands og frá Bandaríkjunum og Kína.

Haft er eftir Merkel á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Evrópusambandið eigi á hættu að lenda á milli í viðskiptaátökum Bandaríkjamanna og Kínverja. Hins vegar gæti sambandið reynt að komast hjá því að sú verði raunin.

Fram kemur í fréttinni að viðbúið sé að ummæli kanslarans verði til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verði enn ákveðnari en áður í kröfu sinni um að Bretar fylgi áfram ýmsum reglum þess í skiptum fyrir viðskiptasamning.

Þar segir að ráðamenn Evrópusambandsins hafi af því áhyggjur að Bretar grípi til aðgerða meðal annars í skattamálum og varðandi umfang regluverks til þess að verða samkeppnishæfari en sambandið eftir að þeir hafa gengið úr því.

mbl.is