Annað tilfelli sýkingar í Bandaríkjunum

Sjúkdómurinn er rakinn til matarmarkaðar í kínversku borginni Wuhan, en …
Sjúkdómurinn er rakinn til matarmarkaðar í kínversku borginni Wuhan, en hann hefur greinst í ferðamönnum sem þaðan hafa komið í fjölda Asíulanda. AFP

Grunur leikur á að annað tilfelli nýrrar kórónaveiru, sem á rætur sínar að rekja til Kína, sé komið upp í Bandaríkjunum. Yfirvöld vestra hafa nú til rannsóknar einkenni veiks ferðamanns sem kom til Texas frá borginni Wuhan.

Lungnasýkingin hefur þegar dregið 18 til bana í Kína og staðfest tilfelli sjúkdómsins telja hundruð, en talið er að fjöldi þeirra sem veikst hafa geti verið margfalt hærri.

Sjúkdómurinn er rakinn til matarmarkaðar í kínversku borginni Wuhan, en hann hefur greinst í ferðamönnum sem þaðan hafa komið í fjölda Asíulanda. Þá hefur eitt tilvik komið upp í Bandaríkjunum, auk þess sem grunur leikur á að sex veikir einstaklingar í Skotlandi og Írlandi séu veikir af kórónaveirunni nýju.

Algert samgöngubann er í gildi í Wuhan og kemst enginn til eða frá borginni, auk þess sem skorður hafa verið settar á samgöngur í að minnsta kosti fimm öðrum kínverskum borgum.

Sjúkdómurinn á líklega rætur sínar að rekja til leðurblaka eða snáka, en hann er nú farinn að smitast manna á milli. Ekki er þó talið að hann hafi smitast á milli manna utan Kína enn sem komið er.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir enn ekki tilefni til að lýsa yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna sjúkdómsins, en fylgist grannt með gangi mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert