Bretadrottning staðfesti Brexit

Elísabet Bretadrottning hefur staðfest Brexit.
Elísabet Bretadrottning hefur staðfest Brexit. AFP

Elísabet Bretadrottning hefur staðfest lög um útgöngusamning ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið. Áður höfðu báðar deildir breska þingsins lagt blessun sína yfir samninginn.

Fram kemur í frétt AFP að Elísabet hafi staðfest lögin fyrr í dag en þar með hafa þau tekið gildi. Gert er ráð fyrir að Bretar gangi formlega úr Evrópusambandinu (Brexit) 31. janúar klukkan 23:00. Boltinn fer nú til stofnana sambandsins.

Reiknað er með að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, undirriti útgöngusamninginn síðar í dag ásamt Charles Michel, forseta leiðtogaráðs sambandsins. Þá verður samningurinn lagður fyrir þing þess til samþykktar.

Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að yfirgefa Evrópusambandið. Eftir útgönguna taka við viðræður um mögulegan viðskiptasamning á milli Bretlands og sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert