Breyta startbyssum í banvæn vopn

Hluti þeirra 74 skotvopna sem fundust í vörslum manns í …
Hluti þeirra 74 skotvopna sem fundust í vörslum manns í Ósló, fyrrverandi startbyssur sem hafði verið breytt og gert kleift að skjóta föstum skotum. Startbyssur eru ódýrar og ekki skráningarskyldar í Noregi og því ákjósanlegar til að kasta í næstu ruslatunnu eftir skotárás. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Þegar lögreglan í Ósló varð þess vör að farið var að nota breyttar startbyssur í æ ríkari mæli sem raunveruleg skotvopn í undirheimum borgarinnar hleypti hún af stokkunum aðgerðinni Atgeir (n. Operasjon Hellebard) með það fyrir augum að leggja hald á vopn þessi og torvelda aðgengi glæpagengja að þeim.

Startbyssur þessar, byssur sem eingöngu er ætlað að framkalla hvell og notaðar eru meðal annars við rásmörk í íþróttakeppnum og við þjálfun veiðihunda, sigla nefnilega auðveldlega undir ratsjá yfirvalda þar sem þær eru seldar í sportvöruverslunum og eru ekki skráningarskyldar eins og venjuleg skotvopn sem skjóta föstum skotum. Þeir sem kunnáttu hafa til breyta svo byssunum þannig að þær skjóti byssukúlum og gera þær þannig að banvænum skotvopnum.

Ódýrt að losa sig við

Þessi breyttu vopn eru eftirsótt í undirheimunum vegna þess að þau kosta ekki nema brot af því sem raunveruleg skotvopn kosta þar og því ákjósanleg til að losa sig við í næstu ruslatunnu eftir að búið er að salla náungann niður úti á götu. Vopnið er og hefur alltaf verið óskráð og engin leið að rekja það til nokkurs nú- eða fyrrverandi eiganda.

Norska ríkisútvarpið NRK fékk að slást í för með séraðgerðahópi lögreglunnar (n. Spesielle Operasjoner (SO)) fyrr í mánuðinum þegar látið var til skarar skríða á heimili manns sem lögregla hafði ástæðu til að ætla að seldi breyttar startbyssur í stórum stíl.

Í íbúð mannsins fann lögregla 44 slík skotvopn og þegar maðurinn vísaði lögreglu á annað húsnæði sem hann hafði til umráða fundust þar 24 til. Í sumum tilfellum hafði hættulaus startbyssa verið betrumbætt svo rækilega að skjóta mátti úr henni 34 föstum skotum á sekúndu.

Komið við sögu í fjölda mála

„Við sjáum það að startbyssum hefur nú hin síðustu ár verið breytt í raunveruleg skotvopn og þær settar í dreifingu í undirheimunum í Ósló,“ segir Anders Rasch-Olsen, yfirmaður SO, við NRK og bætir því við að startbyssurnar hafi þegar komið við sögu í fjölda alvarlegra refsimála.

Startbyssurnar eru gjarnan nákvæmar eftirlíkingar raunverulegra skammbyssna, svo sem Colt, Glock og jafnvel þýsku goðsagnarinnar Luger (sem raunar hét frá framleiðanda Pistole Parabellum, úr lat. para bellum, búðu þig undir stríð), fást sem fyrr segir fyrir lítið verð og er ekki flókið að breyta þannig að af þeim hlaupi byssukúlur.

Vopnin sem fundust í fórum mannsins hafa nú verið afhent rannsóknarlögreglunni Kripos sem rannsakar hættueiginleika þeirra, að sögn Philip Mathew Green, lögfræðings við rannsóknardeild skipulagðrar glæpastarfsemi hjá lögreglunni í Ósló. Hefur Kripos þegar staðfest að þau vopn sem þar hafi nú verið prófuð geti skotið banvænum skeytum.

Ida Andenæs hefur verið skipuð verjandi mannsins og segir hún hann viðurkenna vörslur skotvopnanna þótt hann hafi ekki tekið afstöðu til sektar sinnar eða sakleysis í málinu.

Skutu á bifreið móður með börn

„Þetta er ógnvekjandi og brot á vopnalögum að okkar mati. Við munum nú einbeita okkur að því að koma á verklagi [við sölu og dreifingu] sem samræmist vopnalögum,“ segir Rasch-Olsen.

Breyttum startbyssum hefur ítrekað verið beitt í undirheimaátökum í Ósló svo lögregla viti til og má þar sem dæmi nefna skotbardaga í Ensjø í ágúst 2018 þar sem tvö skot úr slíkri byssu hæfðu bifreið sem ók hjá en ökumaðurinn var móðir með tvö börn sín í bifreiðinni.

Lögregla nefnir einnig dæmi um notkun þessara breyttu skotvopna við fjölda rána og tilrauna til manndráps. „Þetta er ógnvekjandi og við þetta verður ekki búið,“ segir Rasch-Olsen að lokum við NRK.

NRK

NRK II (umfjöllun vorið 2018)

NRK III (skotið á bifreið móðurinnar)

Aftenposten

Document

mbl.is

Bloggað um fréttina