Hefja viðræður við Bandaríkin á undan ESB

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á World Economic Forum í Davos.
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á World Economic Forum í Davos. AFP

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin, sagði í dag að viðskiptasamningur á milli Bandaríkjamanna og Breta væri algert forgangsmál. Sagði ráðherrann enn fremur að stefnt væri að því af hálfu Bandaríkjastjórnar að ganga frá samningi á þessu ári.

Haft er eftir Mnuchin í frétt AFP að viðskiptasamningur á milli Bandaríkjanna og Bretlands, í kjölfar þess að Bretar yfirgefa Evrópusambandið formlega í lok þessa mánaðar, væri „algert forgangsmál fyrir [Donald] Trump forseta og við eigum von á því að ganga frá samningi við þá á þessu ári sem við teljum að verði frábært fyrir þá og okkur.“

Mnuchin lét ummælin falla í samtali við blaðamenn á viðskiptaráðstefnunni World Economic Forum sem stendur yfir í Davos í Sviss. Eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu munu bresk stjórnvöld geta hafið formlegar viðræður um viðskiptasamninga við önnur ríki sem ekki hefur verið mögulegt til þessa þar sem ríki sambandsins framselja valdið til að semja um viðskiptasamninga við önnur ríki til stofnana þess.

Tilgangurinn að setja þrýsting á ESB

Dagblaðið Daily Telegraph greindi frá því fyrr í vikunni að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefði í hyggju að hefja viðræður um viðskiptasamning við Bandaríkin áður en slíkar viðræður færu formlega af stað við Evrópusambandið. Tilgangurinn væri meðal annars sá að setja þrýsting á sambandið að ljúka gerð slíks samnings á árinu en forystumenn þess hafa ítrekað lýst efasemdum sínum um að það verði mögulegt. Þá hefur einnig komið fram að Evrópusambandið verði ekki reiðubúið í viðræður fyrr en í lok febrúar.

Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum til að semja um fríverslun við Bretland eftir að Bretar hafa gengið úr Evrópusambandinu og bresk stjórnvöld hafa að sama skapi lagt áherslu á að semja um fríverslun við bæði helstu efnahagsveldi heimsins eins og Bandaríkin sem og önnur ríki eftir að úr sambandinu er komið.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert