Þrír létust við slökkvistörf

Þrír Bandaríkjamenn létust þegar flugvél þeirra brotlenti í fjalllendi í Ástralíu í nótt. Þremenningarnir voru að varpa vatnssprengjum á kjarrelda þegar slysið varð. 

Samkvæmt upplýsingum frá áströlskum yfirvöldum varð Hercules C-130 flugvél þeirra alelda þegar hún brotlenti í þjóðgarðinum við Snowy-fjöll skömmu fyrir klukkan 13:30 að staðartíma, klukkan 2:30 í nótt að íslenskum tíma. Ekki er vitað hvað olli slysinu en að sögn slökkviliðsstjóra dreifbýlis í Nýja Suður-Wales, Shane Fitzsimmons, var mjög hvasst á þessum slóðum og mjög erfitt er að fljúga með vatnstankana vegna þess. Fjölmennt lið slökkviliðsmanna er að berjast við skógarelda á þessum slóðum en alls hafa kjarreldarnir  sem geisað hafa frá því í september kostað 32 mannslíf. 

Þremenningarnir voru gríðarlega reynslumiklir slökkviliðsmenn og störfuðu fyrir kanadíska félagið Coulson Aviation sem hefur verið ráðið til starfa í baráttunni við eldana. 

C-130 Hercules-þota að störfum í Nýja Suður-Wales.
C-130 Hercules-þota að störfum í Nýja Suður-Wales. AFP
mbl.is