Bandarískum öfgahóp stýrt frá Rússlandi

Rinaldo Nazzaro stofnandi öfgasamtakanna The Base.
Rinaldo Nazzaro stofnandi öfgasamtakanna The Base. Skjáskot af YouTube

Bandarískur stofnandi samtaka nýnasista, The Base, stýrir starfi samtakanna frá Rússlandi. Þetta kemur fram í fréttaskýringum á vef BBC og Guardian. The Base er enska þýðingin á al-Qaeda.

Rinaldo Nazzaro, 46 ára, sem hefur hingað til gengið undir nöfnunum Norman Spear og Roman Wolf, yfirgaf New York fyrir tæpum tveimur árum og flutti til Pétursborgar. Lengi hefur verið á huldu hver hann væri raun og veru en það hefur nú verið upplýst, samkvæmt BBC og Guardian

The Base er sá öfgahópur sem er efstur á lista bandarísku alríkislögreglunnar hvað varðar hryðjuverkaógnir í Bandaríkjunum. Samtökin trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins umfram aðra og hafa sjö meintir liðsmenn samtakanna verið ákærðir nú í janúar fyrir margvíslega glæpi, svo sem samsæri um að fremja morð.

Í  dómskjölum sem FBI hefur lagt fram kemur fram að The Base er öfgasinnaður og ofbeldisfullur hópur sem hefur það meðal annars að markmiði að steypa stjórn landsins, hvetja til stríðs á milli kynþátta og koma á laggirnar ríki hvíta kynstofnsins. 

Samtökin voru stofnuð í júlí 2018 og hefur sótt fylgjendur sína á netinu. Samskipti félaga fara fram í dulkóðuðum skilaboðum og eru fylgjendur hvattir til þess að öðlast herþjálfun. 

Vladimír Pútín forseti Rússlands.
Vladimír Pútín forseti Rússlands. AFP

Nassaro hefur oft notað myndir af sér þegar hann er að auglýsa samtökin á netinu þrátt fyrir að hafa notað fyrrnefnd dulnefni. Myndirnar eru bæði teknar í Bandaríkjunum og í Rússlandi. Í fyrra var Nazzaro skráður sem gestur rússnesku ríkisstjórnarinnar á öryggismálaráðstefnu í Moskvu.

Í myndskeiði sem birt var á netinu í mars sést Nazzaro í Rússlandi klæddur stuttermabol með mynd af Vladimír Pútín, forseta Rússlands, ásamt áletruninni: Allt vald til Rússlands. 

Rannsóknarblaðamenn BBC eltu Nazzaro og eiginkonu hans, sem er rússnesk, uppi og fundu þau í miðborg Pétursborgar. Þar búa þau í íbúð sem er skráð á hennar nafn í hverfi efnafólks. Íbúðin var skráð á hennar nafn í júlí 2018, á sama tíma og FBI telur að The Base hafi orðið til. 

Bandarískur þjóðernissinni.
Bandarískur þjóðernissinni. AFP

Gögn sýna að áður en Nazzaro flutti til Rússlands rak hann fyrirtæki sem var skráð í New York og bauð upp á þjónustu sérfræðinga í öryggismálum. 

Á vef fyrirtækisins Omega Solutions kom meðal annars fram að starfsmenn þess hafi unnið með ýmsum ríkisstjórnum og leyniþjónustustofnunum að margvíslegum verkefnum meðal annars í Írak og Afganistan. Þegar blaðamenn BBC heimsóttu húsið sem hýsti fyrirtækið var ekkert annað þar að finna en póstbox. 

Nazzaro kvæntist konu sinni í New York árið 2012 en hún hafði flutt til borgarinnar frá Rússlandi fjórum árum fyrr. Á ferilskrá hennar segir að hún hafi starfað í banka. Þegar hann hóf að auglýsa The Base á netinu árið 2018 sem Norman Spear fluttu þau til Rússlands ásamt börnum sínum.

Á samfélagsmiðlum það sama ár birti Norman Spear myndum og myndskeiðum frá bresku hryðjuverkasamtökunum National Action, lofsöng al-Qaeda og leitaði sjálfboðaliða sem byggju yfir ákveðnum hæfileikum og ættu vopn að ganga til liðs við samtökin.

Upplýsingar benda til þess að hann hafi verið í hernum og starfað hjá CIA um tíma auk þess að hafa lagt stund á nám í varnarmálum. 

mbl.is