Kórónaveiran komin til Finnlands?

Ferðamenn í sleðaferð í Lapplandi.
Ferðamenn í sleðaferð í Lapplandi. AFP

Tvær manneskjur sem koma frá kínversku borginni Wuhan eru í einangrun á sjúkrahúsi í Lapplandi eftir að hafa fundið fyrir einkennum sem minna á inflúensu. Sýni voru tekin úr þeim í morgun og send í frekari rannsókn í Helsinki, segir í fréttum finnskra og sænskra fjölmiðla.

Í frétt YLE er haft eftir sóttvarnalækni í Lapplandi, Markku Broas, að von sé á niðurstöðunum síðdegis eða í kvöld. Aftur á móti er ekki víst að fullnaðarniðurstaða komi fyrr en eftir helgi vegna reglna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur sett vegna veirunnar. 

Um er að ræða tvær manneskjur úr kínverskri fjölskyldu sem hefur verið á ferðalagi í Lapplandi undanfarna daga. Þau komu frá Wuhan í gegnum Noreg segir Broas. Veiran greindist fyrst í Wuhan og alls eru yfir 800 smitaðir og 26 látnir. Auk Kína hafa smit verið staðfest í Suður-Kóreu, Japan, Hong Kong, Makaó, Taílandi, Taívan, Singapúr, Víetnam og Bandaríkjunum. 

Frétt YLE

Frétt SVT

mbl.is