Neyðarnefnd WHO ósammála um kórónaveiru

Skimanir farþega hafa verið teknar upp víða og telur neyðarnefnd …
Skimanir farþega hafa verið teknar upp víða og telur neyðarnefnd WHO öll ríki þurfa vera undir það búin að grípa til viðeigandi aðgerða greinist kórónuveirusmit. AFP

Á fundi neyðarnefndar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, 22. janúar voru nefndarmenn ósammála um hvort útbreiðsla kórónaveiru skyldi skilgreind sem alþjóðleg lýðheilsuvá, en nefndin komst að sameiginlegri niðurstöðu um að málið væri brýnt og að nefndin myndi funda á ný innan fárra daga, að því er fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

„Gera má ráð fyrir því að smit haldi áfram að berast yfir landamæri og að smit geti greinst í hvaða landi sem er,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. Er því mat hennar að öll ríki þurfi að vera undir það búin að þurfa að bregðast við í þeim tilgangi að hindra frekari útbreiðslu veirunnar, meðal annars með virku eftirliti til þess að tryggja uppgötvun smita á fyrri stigum, einangrun, rekja smit og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Biðlar nefndin til ríkja að tryggja að nákvæmar og ítarlegar upplýsingar um smit berist stofnuninni í takt við alþjóðlegar skuldbindingar þeirra.

Þá hefur neyðarnefndin lagt fram sérstakar kröfur gagnvart kínverskum stjórnvöldum og eru þau meðal annars beðin um að skima brottfararfarþega á flugvöllum og höfnum á svæðum þar sem smit hefur greinst. Jafnframt er beðið um að skimanir fari fram á innanlandsflugvöllum, lestarstöðvum og rútustöðvum.

mbl.is