Samningurinn samþykktur í Brussel

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, undirritaði útgöngusamning sambandsins við bresk stjórnvöld í morgun. Hið sama gerði Charles Michel, forseti leiðtogaráðs sambandsins.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en áður höfðu báðar deildir breska þingsins samþykkt lög um samþykkt útgöngusamningsins. Elísabet Bretadrottning staðfesti síðan lögin í gær.

Eftir að hafa undirritað samninginn sagði Michel að tengsl sambandsins við Bretland myndu nú óhjákvæmilega breytast en vináttan yrði áfram til staðar. „Við hefjum nýjan kafla sem samstarfsaðilar og bandamenn.“

Samningurinn fer í kjölfarið aftur til Bretlands þar sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun undirrita hann. Þá fer hann aftur til Brussel þar sem hann verður lagður fyrir þing Evrópusambandsins til samþykktar.

Gert er ráð fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið formlega 31. janúar. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að yfirgefa sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina