„Erfitt fyr­ir Vest­ur­landa­búa að ímynda sér“

Til stendur að klára byggingu spítalans á næstu dögum.
Til stendur að klára byggingu spítalans á næstu dögum. AFP

Bygging nýs sjúkrahúss í kínversku borginni Wuhan er hafin og á starfsemi sjúkrahússins að miða að því að takmarka frekari útbreiðslu kórónaveirunnar. Þar á að vera hægt að taka á móti um það bil eitt þúsund sjúklingum og á framkvæmdin ekki að taka nema sex daga.

BBC greinir frá.

Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur verið óhugnanlega hröð frá því hún greindist fyrst í byrjun árs. Talið er að fyrstu smitin hafi átt sér stað á matarmarkaði í Wuhan-borg og á fyrstu tveimur vikum ársins hafði sýkingin verið staðfest í 41 einstaklingi og einn hafði látist. Nú eru staðfest smit orðin rúmlega 900 talsins í Kína og 41 einstaklingur hefur látið lífið af völdum sjúkdómsins.

Þá hafa smit verið staðfest í fleiri Asíulöndum, þar á meðal Japan, Singapúr, Suður-Kóreu og Taílandi, sem og í Bandaríkjunum og Frakklandi. Fregnir af óstaðfestum smitum hafa borist frá Skotlandi, Írlandi og Finnlandi.

Ástandið í Wuhan er vægast sagt slæmt enda eru sjúkrahús þar yfirfull af áhyggjufullum borgurum og farið er að bera á lyfjaskorti í apótekum. Borgaryfirvöld hafa brugðist við með því að hefja metnaðarfullar framkvæmdir á nýju sjúkrahúsi sem á að vera tilbúið til notkunar á næstu dögum.

Heimsmetið talið vera sjö dagar

„Þetta verður einangraður spítali þar sem öryggisaðstæður og búnaður verður til staðar svo hægt sé að leggja inn fólk með smitsjúkdóma,“ segir Joan Kaufman, lektor í alþjóðaheilbrigðisvísindum við Harvard-háskóla.

Jarðvegsvinna er þegar hafin á svæði sem þekur um 25 þúsund fermetra. Að henni lokinni verður forsmíðuðum byggingum komið fyrir á lóðinni áður en tæki og tól verða sett upp.

Slík sjúkrahúsbygging hefur áður verið reist í Kína á mettíma en það var árið 2003 í Peking þegar SARS-veiran kom þar upp. Þá tók það um fjögur þúsund manns sjö daga að reisa Xiaotangshan-sjúkrahúsið og talið er að um heimsmet hafi verið að ræða.

Miðstýring valds í Kína hjálpar til

„Kínverjar slá met þegar kemur að því að klára svona framkvæmdir á stuttum tíma,“ segir Yanzhong Huang, yfirmaður á heilbrigðissviði Alþjóðaskrifstofu Kína. Segir hann að vald- og stjórnkerfið Kína, þar sem einn stjórnmálaflokkur stjórnar öllu, sé þannig uppbyggt að hægt sé að komast hjá stofnanaskriffinnsku og hindrunum þegar slíkar krísur koma upp og því sé mögulegt að klára umfangsmikil verkefni á mjög stuttum tíma.

„Kínverjar standa mjög framarlega þegar kemur að verkfræði og hönnun. Þeir eru vanir því að reisa skýjakljúfa á miklum hraða. Það er erfitt fyrir Vesturlandabúa að ímynda sér hvernig þeir gera þetta en þetta er hægt,“ bætir hann við.

Unnið er dag og nótt að byggingu sjúkrahússins.
Unnið er dag og nótt að byggingu sjúkrahússins. AFP
mbl.is