Írsk systkini létust á óútskýrðan hátt

Börnin þrjú ásamt föður sínum, Andrew. Systkininin voru á aldrinum …
Börnin þrjú ásamt föður sínum, Andrew. Systkininin voru á aldrinum 3-9 ára. Ljósmynd/Írska lögreglan

Lík þriggja ungra barna, tveggja drengja og einnar stúlku, fundust í húsnæði í úthverfi Dyflinnar, höfuðborgar Írlands, í gærkvöldi. Málið er allt hið dularfyllsta miðað við fyrstu fregnir.

Í frétt Irish Times frá því í nótt var greint frá því að engir sjáanlegir áverkar hafi verið á líkunum, en haft var eftir lögreglu að morðrannsókn yrði líklega sett í gang. Í frétt írska Sun segir hins vegar að lögregla rannsaki meðal annars hvort börnin hafi mögulega kafnað.

Börnin voru systkini og hétu Conor, Darragh og Carla. Conor var þeirra elstur, níu ára, en Carla var yngst, einungis þriggja ára. Darragh var sjö ára gamall.

Kona, sem talin er vera móðir barnanna, var færð frá húsinu í örvinglunarástandi. Ekki kemur fram hvort hún liggi undir grun um að hafa framið ódæði, en lögregla gaf upp að vonandi gæti hún varpað ljósi á það sem gerst hafði.

Faðir barnanna var ekki heima við er atvikið átti sér stað, en samkvæmt Irish Sun hefur hann verið látinn vita af andláti barna sinna.

mbl.is