Sænskur dúx grunaður um þrjú morð

Tæplega þrítugur Svíi, fyrrverandi afburðanemandi við lagadeild Háskólans í Uppsala, …
Tæplega þrítugur Svíi, fyrrverandi afburðanemandi við lagadeild Háskólans í Uppsala, situr í gæsluvarðhaldi í Barcelona grunaður um að stinga þrennt til bana þar í borg síðdegis á mánudaginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við hittumst oft á kránni. Hann var mjög opinn og með skemmtnari mönnum.“ Þetta segir skólabróðir 28 ára gamals Svía, fyrrverandi laganema við Háskólann í Uppsala í Svíþjóð, við sænska dagblaðið Aftonbladet.

Tilefnið er að laganeminn fyrrverandi, afburðanemandi sem hlaut hæstu einkunn á fjölmörgum prófum í námi sínu, situr nú í gæsluvarðhaldi í spænsku borginni Barcelona, grunaður um að hafa myrt þrjár manneskjur síðdegis á mánudag.

Fyrsta fórnarlambið var þrítugur barþjónn, Héctor Núñez, sem var stunginn og rændur í íbúð sinni í fjölbýlishúsi í borginni. Ódæðismaðurinn kveikti í íbúðinni eftir að hafa ráðið íbúa hennar bana og klifraði því næst niður af svölum og forðaði sér hlaupandi. Sænskir fjölmiðlar greindu upphaflega frá því að fyrsta fórnarlambið hefði verið eldri maður en breyttu því í síðari frétt.

Réðst inn í skóbúð

Næsta fórnarlamb var 77 ára gömul kona, Rosa Díaz, sem maðurinn stakk til bana fyrir utan heimili hennar, og það þriðja rúmlega fimmtugur blaðamaður og dósent við Pompeu Fabra-háskólann í borginni, David Caminada. Harmi slegin kona hans, Cristina Palomar, deildi mynd af þeim á Twitter og skrifaði þar „Minn elskaði er dáinn. Það er ég líka.“

Svíinn var að lokum handtekinn skammt frá Sant Jaume-torginu í gamla bænum í Barcelona þar sem hann mun hafa stolið vespu til að koma sér undan. Yani, kona á fertugsaldri sem starfar í skóbúð skammt frá Sant Jaume, ræddi við Aftonbladet sem gefur aðeins upp fornafn hennar.

Hún segist hafa setið í húsasundi aftan við búðina og drukkið kaffi um fjögurleytið á mánudaginn þegar maður með svartan hjálm og hálsklút fyrir vitunum hafi komið æðandi með hníf í hendi. „Augnaráð hans var tryllingslegt,“ segir Yani frá. Hún forðaði sér inn í búðina og hnífamaðurinn veitti henni eftirför. Yani segir að þegar inn var komið hafi manninum greinilega brugðið við þegar hann áttaði sig á að hann var staddur í verslun.

Blaðamaðurinn og dósentinn David Caminada var þriðja og síðasta fórnarlambið …
Blaðamaðurinn og dósentinn David Caminada var þriðja og síðasta fórnarlambið á mánudaginn. Hann lést af sárum sínum á miðvikudagsmorgun. Cristina Palomar, kona hans, sagði harmi slegin frá atburðinum á Twitter. Ljósmynd/Twitter

Samstarfsmaður Yani ávarpaði manninn og segir Yani hann hafa svarað á tungumáli sem hún skildi hvorki upp né niður í. Yani hljóp þá út um aðaldyr verslunarinnar til að gera lögreglu aðvart, sem jafnan er stödd á Sant Jaume-torginu. Á meðan mun sá hjálmklæddi hafa elt samstarfsmanninn kringum búðarborðið með hnífinn á lofti en að lokum séð sitt óvænna og forðað sér út um bakdyrnar. Var hann horfinn þegar Yani og samstarfsmaðurinn litu þar út.

„Svarta síðdegið“

Spænskir fjölmiðlar tala um „svarta síðdegið“ (sp. tarde negra) en ekkert er vitað enn um hvað sá sænski hefur látið uppi við yfirheyrslur. Samkvæmt spænska dagblaðinu La Vanguardia höfðu spænsk lögregluyfirvöld samband við ræðismann Svíþjóðar í Barcelona á miðvikudaginn með það fyrir augum að afla frekari upplýsinga um manninn.

Hinn grunaði hefur svo til engan sakaferil. Árið 2013 var hann tekinn með lítilræði af kannabisefni í Svíþjóð auk þess sem Aftonbladet tínir það til að hann sé í skuld með afnotagjöld við sænska ríkisútvarpið. Eina skiptið sem maðurinn hefur komið fyrir dómara í Svíþjóð var þegar hann skildi við eiginkonu sína árið 2015.

Þrátt fyrir framúrskarandi árangur í laganáminu hætti stúdentinn efnilegi námi eftir að hann fór að aðstoða vin sinn, sem átti í málaferlum, og flutti mál hans fyrir sænskum dómstól þrátt fyrir að hafa hvorki lokið námi né öðlast málflutningsréttindi.

Samnemendum hans er mjög brugðið og segja sænskum fjölmiðlum að síst hefðu þeir tengt sinn gamla skólabróður við nokkurs konar ofbeldi.

Aftonbladet

Aftonbladet II

Aftonbladet III

Sænska ríkisútvarpið SVT

Expressen

El Casco

La Vanguardia

El País


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert