Einangruð eftir jarðvegsskriðu

Jarðvegsskriðan sem þau hjónin, Lill Tove og Jørn Otto Røed, …
Jarðvegsskriðan sem þau hjónin, Lill Tove og Jørn Otto Røed, komu að eldsnemma í morgun lokar veginum til Sør-Eitran á 50 metra löngum kafla en skriðan er 100 metra breið þar sem hún er breiðust. Ljósmynd/Otto Benjamin Røed

„Við maðurinn minn vorum að koma úr fimmtugsafmæli hjá nágranna okkar sem býr um það bil þrjá kílómetra frá okkur. Þegar við vorum hálfnuð heim komum við auga á skriðuna sem er gríðarstór.“

Svo segist Lill Tove Røed, íbúa í Heimly, um fjóra kílómetra frá Sør-Eitran í sveitarfélaginu Nærøysund í Þrændalögum í Noregi, frá því þegar þau maður hennar, Jørn Otto Røed, sem voru fótgangandi, komu að um 100 metra breiðri jarðvegsskriðu sem fallið hafði á veginn til Sør-Eitran og lokað honum algjörlega á 50 metra löngum kafla. Røed ræddi við mbl.is í kvöld.

Vegurinn horfinn

„Vegurinn var horfinn, vegriðið var að mestu komið út í vatnið [Rødsvatnet] og laus jarðvegsmassi og tré byrgðu okkur sýn,“ segir Røed frá og segir að engin leið hafi verið fyrir þau hjónin að komast fram hjá skriðunni eða yfir hana í myrkrinu en þau voru á ferð á sjöunda tímanum í morgun að norskum tíma. Þau hafi því brugðið á það ráð, eftir að hafa tilkynnt upplýsingamiðstöð um færð og ástand vega, Vegmeldingssentralen, um skriðuna að leggja á fjallið ofan við veginn og ganga yfir það til heimilis síns.

Eins og sést á þessari mynd hefur vegriðið rifnað upp …
Eins og sést á þessari mynd hefur vegriðið rifnað upp og hluti af því borist út í Rødsvatnet neðan við veginn. Ljósmynd/Otto Benjamin Røed

Røed og sonur hennar, Otto Benjamin Røed, sneru svo til baka í dag, þegar dagsbirtu naut við, og tók sonurinn þá þær myndir sem fylgja hér með.

Røed segir mest um vert að enginn varð fyrir skriðunni og þakkar fyrir að þau hjón voru ekki fyrr á ferð í nótt. Ellefu heimili með um 20 íbúum eru algjörlega einangruð vegna veglokunarinnar og mun sveitarfélagið bregða á það ráð að flytja íbúana með bátum til að koma þeim til vinnu, skóla og annarra nauðsynlegra erinda.

Óvenjuhlýtt og -regnsamt

Røed segir skriðu ekki áður hafa fallið á þeim stað sem skriðan féll í nótt, hins vegar hafi nokkuð borið á smærri skriðum undanfarna mánuði. Veturinn hafi verið óvenjulega mildur og mikil rigning fylgt hlýindunum, en norskir fjölmiðlar fjalla einmitt um það í dag, eins og mbl.is greindi frá, að rúmlega 100 hitamet falli líklega í Noregi þennan janúarmánuðinn haldi hlýviðrið áfram til mánaðamóta. Hún bendir þó á að stór jarðvegsskriða hafi fallið í Kolvereid, skammt frá, í september. Íbúðarhús slapp þá naumlega en skriðan hafði bílskúrinn á brott með sér.

Ekkert áhlaupaverk verður að fjarlægja jarðvegsmassann og trén svo vegurinn …
Ekkert áhlaupaverk verður að fjarlægja jarðvegsmassann og trén svo vegurinn verði fær ökutækjum á ný. Íbúar Sør-Eitran verða fluttir með bátum til skóla, vinnu, búða og annarra nauðsynjaerinda næstu daga. Ljósmynd/Otto Benjamin Røed

 

Óljóst er hvenær unnt verður að opna veginn á ný en vinna við það hefst að öllum líkindum á morgun. „Þetta er stórt svæði sem er einangrað svo við höfum aðeins hitt fáa af nágrönnum okkar, við munum þurfa aðstoð við að komast í vinnu, skóla, búðir og til læknis, krefjist nauðsyn þess, en við erum bara jákvæð og vonum að þetta leysist áður en langt um líður,“ segir Lill Tove Røed að lokum, innilokuð í Heimly.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert