Engisprettur ráðast á Austur-Afríku

Gríðarlegur fjöldi engisprettna herjar á Keníu. Jafnvel lítill hópur þeirra …
Gríðarlegur fjöldi engisprettna herjar á Keníu. Jafnvel lítill hópur þeirra getur borðað fæðu sem myndi metta 35.000 manns á einum degi. AFP

Versti engisprettufaraldur sem sést hefur í 70 ár í Keníu geisar nú. Hundruð milljóna engisprettna hafa borist til Keníu frá Sómalíu og Eþíópíu þar sem faraldurinn geisar einnig.

Síðarnefndu löndin hafa ekki séð annað eins í aldarfjórðung en engispretturnar hafa gjöreyðilagt ræktarland og ógna þannig fæðuöryggi ríkja sem er nú þegar mjög viðkvæmt. Guardian greinir frá þessu. 

„Jafnvel kýrnar eru að velta fyrir sér hvað gangi eiginlega á,“ sagði Ndunda Makanga, bóndi sem klukkustundum saman reyndi að reka engispretturnar í burt frá býli sínu. „Engispretturnar eru búnar að éta allt.“

Vandinn gæti orðið 500 sinnum stærri

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið það út að þegar rigningartímabil hefst í mars gæti vandinn versnað til muna og stofn engisprettnanna orðið 500 sinnum stærri áður en þurrkatímabil dregur úr útbreiðslu þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar hvetja til tafarlausra aðgerða þar sem þjóðir í Austur-Afríku upplifa nú þegar hrikalegt hungur og sjá fram á að stór ræktunarsvæði gjöreyðileggist. 

AFP

Um það bil 70 milljóna dala er þörf til að stemma stigu við útbreiðslu engisprettnanna með skordýraeitri. Að mati Sameinuðu þjóðanna er það eina árangursríka leiðin til að berjast við vána. Það verður þó erfitt, sérstaklega í Sómalíu þar sem hryðjuverkasamtök sem tengjast al-Qaida halda hlutum landsins í heljargreipum. 

Jafnvel lítill hópur engisprettna getur neytt fæðu sem myndi metta 35.000 manns á einum degi, sagði Jens Laerke sem starfar á mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf. 

Bændur eru hræddir við að sleppa nautgripum sínum til beitar og ræktun þeirra á hirsi, maís og fleiri er mjög viðkvæm. 

Engisprettur hafa nú þegar herjað á um 70.000 hektara lands í Keníu.

mbl.is