Fólk smitar áður en einkenni sjást

Frá neðanjarðarlestarstöð í Peking, höfuðborg Kína, í dag.
Frá neðanjarðarlestarstöð í Peking, höfuðborg Kína, í dag. AFP

Kínversk heilbrigðisyfirvöld segja að kórónavírusinn frá Wuhan, sem nú hefur grandað að minnsta kosti 56 manns þar í landi, sé smitandi áður en smitberar verði varir við nokkur einkenni. Það geri þeim erfiðara fyrir við að hefta útbreiðslu veirunnar.

BBC fjallar um þetta í dag og segir James Gallagher, heilsu- og vísindafréttaritari þeirra, að mikilvægt sé að þessi skilningur hafi komið fram.

Segir Gallagher að samkvæmt þessu sé snúnara að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar en ýmissa annarra farsótta. Nefnir hann til samanburðar sérstaklega HABL-bráðalungnabólguna (SARS) sem varð að heimsfaraldri árið 2003 og ebólu-veiruna, þeir sem sýkjast af þeim sóttum smita ekki fyrr en einkenni eru komin fram.

Þannig sé kórónaveiran meira í líkingu við hefðbundna flensu, sem hefur þann eiginleika að smitast frá einkennalausum smitberum.

Gallagher segir að einnig sé ýmsum spurningum ósvarað, nú þegar þessi vitneskja er komin fram, til dæmis um hversu smitandi fólk sé á því skeiði meðgöngutíma sóttarinnar þar sem engin einkenni eru sjáanleg og hvort þeir sem greinst hafa með veiruna í öðrum löndum en Kína hafi mögulega smitað fleiri áður en þeir sjálfir greindust.

Hér að neðan má sjá myndskeið frá fréttamönnum BBC í Kína, sem sóttu lokuð svæði í Hubei-héraði heim í dag.mbl.is