Forsætisráðherrahjónin flækt í morðmál

Tomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó.
Tomas Thabane, forsætisráðherra Lesótó. AFP

Forsætisráðherra Afríkuríkisins Lesótó og eiginkona hans eru flækt í morðrannsókn sem nú stendur yfir vegna andláts fyrri eiginkonu forsætisráðherrans.

Thomas Thabane forsætisráðherra og Maesaiah Thabane núverandi eiginkona hans hafa verið beðin að koma í yfirheyrslu vegna morðsins á Lipolelo Thabane, fyrrverandi eiginkonu forsætisráðherrans. Maesaiah Thabane er eftirlýst vegna málsins. BBC segir frá þessu.

Lipolelo Thabane var myrt árið 2017, tveimur dögum áður en Thabane tók formlega við embætti forsætisráðherra. Þá hafði hún ekki búið með eiginmanni sínum frá árinu 2012.

Kvöld eitt þegar Lipolelo Thabane var á leið heim var setið fyrir henni og skotið á hana nokkrum sinnum. Hún lést í kjölfarið og fannst lík hennar í kanti moldarvegar. Stuttu eftir morðið lýsti forsætisráðherrann morðinu sem siðlausum verknaði.

Farsímanúmer forsætisráðherrans notað á vettvangi

Eftir að Lipelo Thabane var myrt var skuldinni skellt á óþekkta vopnaða menn. Nýleg dómsskjöl hafa þó vakið frekari spurningar um morðið. 

Á meðal skjalanna er bréf dagsett 23. desember síðastliðinn. Bréfið skrifar lögreglustjóri til forsætisráðherrans. Þar segir: „Rannsókn á málinu leiðir í ljós að samskipti í síma áttu sér stað á vettvangi glæpsins. Farsímanúmerið sem um ræðir tilheyrir þér.“

Forsætisráðherrafrúin virðist horfin

Handtökuskipun var gefin út á hendur hinni 42 ára gömlu Maesiuh Thabane hinn 10. janúar eftir að hún mætti ekki í yfirheyrslu. Hún hefur ekki sést opinberlega í tvær vikur og enginn virðist vita hvar hún er. Thomas Thabane er enn í Lesótó og hefur hann forðast spurningar um dvalarstað konu sinnar. 

Forsætisráðherrann hefur gefið það út að hann ætli að segja …
Forsætisráðherrann hefur gefið það út að hann ætli að segja af sér embætti á næstunni, en ekki nákvæmlega hvenær það verður. Hann segir það gert fyrir aldurs sakir og að afsögn hans tengist ekki þessu máli. AFP

Íbúar Lesótó eru margir hverjir reiðir vegna málsins og hafa víða verið hengd upp auglýsingaskilti sem beina spjótum að forsætisráðherrahjónunum. Telur fjöldi fólks að hjónin séu ábyrg fyrir morðinu á Lipoleo Thabane.

Í síðustu viku samþykkti forsætisráðherrann með semingi að mæta í yfirheyrslu til lögreglu. Hvorki hann né eiginkona hans hafa verið ákærð.

Rannsókn málsins hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Lögreglumanninum sem sér um rannsóknina hafa borist líflátshótanir vegna hennar og hefur fjöldi áhrifamikils fólks reynt að koma í veg fyrir framgang rannsóknarinnar.

Forsætisráðherrann hefur gefið það út að hann ætli að segja af sér embætti á næstunni, en ekki nákvæmlega hvenær það verður. Hann segir það gert fyrir aldurs sakir og að afsögn hans tengist ekki þessu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert