Schiff er spilltur og „líklega mjög sjúkur maður“

Donald Trump Bandaríkjaforseti jós úr skálum reiði sinnar á Twitter …
Donald Trump Bandaríkjaforseti jós úr skálum reiði sinnar á Twitter í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur farið mikinn á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Réttarhöldin yfir honum vegna meintra brota hans í embætti forseta eru honum ofarlega í huga sem og einstaka þingmenn Demókrataflokksins.

Hann fer ófögrum orðum um Adam Schiff, þingmann Demókrataflokksins, og segir hann bæði vera spilltan stjórnmálamann sem og „líklega mjög sjúkan mann“. Þá segir hann að Schiff sé ekki enn búinn að borga fyrir það sem hann hefur gert Bandaríkjunum.

Spurður hvort hann líti á skrif forsetans sem hótun sagðist Schiff í það minnsta gera ráð fyrir því að þau væru ætluð til að ógna honum. Í samtali við fréttastofu NBC sagði hann að Trump væri hefnigjarn forseti og fullur af bræði. Reuters greinir frá. 

Adam Schiff, þingmaður demókrata, telur að Trump hafi verið að …
Adam Schiff, þingmaður demókrata, telur að Trump hafi verið að reyna ógna sér með skrifum hans í dag. AFP

Trump ítrekar einnig enn og aftur að réttarhöld Bandaríkjaþings yfir honum séu eitt stórt svindl og samsæri gegn honum og hvetur fylgjendur sína til að lesa uppskrift samtals hans við forseta Úkraínu og gera upp hug sinn í stað þess að hlusta á þingmenn Demókrataflokksins. Trump er meðal annars ákærður fyrir að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld þrýstingi í því skyni að koma höggi á Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn, og son hans Hunter Biden.

Lögmenn Trump hófu málflutning sinn og málsvörn Trump í gær eftir að demókratar höfðu lokið sínum málflutningi. Lögmenn Trump sögðu í gær að ef honum yrði gert að víkja úr embætti forseta myndi það skapa mjög hættulegt fordæmi fyrir landið. Hlé var gert á réttarhöldunum í dag en þau hefjast aftur á morgun.

mbl.is