Yfirvöld flytja borgara sína burt frá Kína

Mánudagsmorgunn er runninn upp í Kína og þar með hafa …
Mánudagsmorgunn er runninn upp í Kína og þar með hafa víðtæk ferðabönn tekið gildi vegna hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar. AFP

Fimm tilfelli kórónaveirunnar sem kennd er við Wuhan-borg hafa verið staðfest í Bandaríkjunum. Bandarísk yfirvöld undirbúa nú brottflutning ræðismanna sinna og annarra bandarískra ríkisborgara frá Wuhan. Verður það gert með flugferð frá Wuhan til San Francisco.

Kórónaveiran, sem dregið hefur 56 til bana á skömmum tíma, á rætur að rekja til Wuhan í Hubei-héraði í Kína. Fjöldi sýktra nálgast 2.000 og eru þeir flestir í Hubei, en þó eru komin upp tilfelli víðar í Kína, í Asíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Franski bílaframleiðandinn PSA, sem rekur verksmiðju í Wuhan, hefur einnig tilkynnt að allt starfsfólk og fjölskyldur þeirra verði flutt burt frá borginni og komið fyrir í nálægu héraði á meðan faraldurinn gengur yfir.

Þá hafa japönsk yfirvöld sagst vera í samstarfi við stjórnvöld í Peking um að koma Japönum hratt og örugglega úr landi, auk þess sem yfirvöld í Suður-Kóreu kanna eftirspurn eftir brottflutningi meðal ríkisborgara sinna.

Ferðabann hefur áhrif á tugi milljóna

Mánudagsmorgunn er runninn upp í Kína og þar með hafa víðtæk ferðabönn tekið gildi vegna hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar.

Kínversk yfirvöld hafa gripið til víðtækra ferðatakmarkana bæði innan Kína og í tengslum við hópferðir Kínverja út fyrir landsteinana. Wuhan-veiran hefur þegar greinst utan Kína, svo sem í Ástralíu, Bandaríkjunum og Frakklandi, auk fjölda Asíulanda.

Heilbrigðisyfirvöld í Kína eru uggandi vegna útbreiðslu veirunnar, en að þeirra sögn virðist hún smitast manna á milli með æ auðveldari hætti. Nú er til að mynda komið í ljós að sýktir einstaklingar eru byrjaðir að smita áður en nokkur einkenni eru komin fram. Enn er veiran þó ekki jafn bráðsmitandi og SARS-veiran sem dró hundruð til bana á árunum 2002 til 2003.

Í Hubei-héraði sæta tugir milljóna manna nánast algeru ferðabanni. Í Shandong-héraði og í stórborgunum Peking, Shanghai, Xi'an og Tianjin hefur langferðarútum verið meinuð inn- og útganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert