Dánarorsökin enn ókunn

Conor (9 ára), Darragh (7 ára) og Carla (3 ára) …
Conor (9 ára), Darragh (7 ára) og Carla (3 ára) ásamt föður, Andrew McGinley. Mynd sem faðir barnanna birti á netinu

Beðið er niðurstöðu réttameinarannsóknar en talið er að þrjú írsk systkini hafi annaðhvort verið kæfð eða gefin róandi lyf og þau dáið úr ofskömmtun. Börnin fundust látin á heimili sínu á föstudagskvöldið.

Þetta kemur fram í írskum fjölmiðlum í gærkvöldi og morgun. Lögreglan telur að þau hafi verið látin í einhvern tíma áður en þau fundust á föstudagskvöldið en börnin, Conor (9 ára), Darragh (7 ára) og Carla (3 ára) höfðu verið í skóla og leikskóla fyrr um daginn en komið heim síðdegis.

Dánarstund er talin hafa verið síðdegis á föstudag en móðir þeirra, Deirdre Morley, yfirgaf heimilið um kvöldið. Leigubílstjóri segist hafa séð hana á ráfi í hverfinu á áttunda tímanum um kvöldið og hún greinilega illa áttuð. Hafði hann áhyggjur af líðan hennar og tók hana upp í bílinn og keyrði heim. Þegar þau komu að heimili Morley-fjölskyldunnar var hún að missa meðvitund þannig að leigubílstjórinn hringdi í Neyðarlínuna.

Þegar lögregla og sjúkraflutningafólk kom á staðinn var eiginmaður hennar og faðir barnanna, Andrew McGinley, að koma að húsinu ásamt öðrum manni. Hluti hópsins fór inn í húsið þar sem hann fann miða þar sem beðið var um að þau færu ekki lengra heldur ættu þau að hringja í Neyðarlínuna. McGinley, ásamt lögreglu, fann börnin þrjú látin, tvö á efri hæð hússins og eitt þeirra niðri.

Lögreglan telur að börnunum hafi verið gefin lyf eða eitrað fyrir þeim og þau síðan kæfð.

Móðir þeirra er fárveik á sjúkrahúsi en hún hefur verið í veikindaleyfi frá barnaspítalanum þar sem hún starfar sem hjúkrunarfræðingur. Ástæða leyfisins er streita.

Frétt Irish Examiner

Frétt Irish Times

Frétt BBC

mbl.is