Engin kóróna í Malmö

Malmö á Skáni í Svíþjóð. Grunur lék á kórónaveirusmiti í …
Malmö á Skáni í Svíþjóð. Grunur lék á kórónaveirusmiti í tveimur sjúklingum sem leituðu til smitsjúkdómadeildar Háskólasjúkrahúss Skánar í borginni en sýni úr þeim reyndust neikvæð. Hlutabréfavísitölur í Stokkhólmi tóku dýfu í dag og þurrkaðist öll hækkun OMXS-vísitölunnar frá áramótum út. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jorchr

Tveir sjúklingar, sem sátu í einangrun á Háskólasjúkrahúsi Skánar í Malmö vegna gruns um smit af völdum kórónaveiru, reyndust ekki smitaðir. Sænskir fjölmiðlar greindu frá þessu í dag eftir að sýni, sem tekin voru úr fólkinu, reyndust neikvæð.

Birgitta Holmgren sóttvarnalæknir segir í fréttatilkynningu, sem sænska ríkisútvarpið SVT og fleiri sænskir miðlar greina frá í dag, að sjúkrahúsið hafi fylgt verklagsreglum þegar tvemenningarnir leituðu til smitsjúkdómadeildar og kvörtuðu yfir öndunarörðugleikum.

„Fólk er á ferðalögum um allan heim, þar á meðal til Kína, svo við getum ekki útilokað að við fáum inn sjúklinga með þessa veirusýkingu [kórónaveiruna],“ segir Holmgren í samtali við SVT og ítrekar það sem Eva Gustafsson, starfssystir hennar, sagði við Sydsvenskan-dagblaðið í gærkvöldi, að fólk, sem verið hefur á ferð í Wuhan-borg í Kína síðustu tvær vikur og finnur fyrir hita, óþægindum í hálsi eða öndunarerfiðleikum, hringi í læknavaktina og þiggi þar leiðbeiningar um hvert það skuli snúa sér.

Fréttir af hugsanlegum tilfellum kórónaveiru í Svíþjóð höfðu áhrif langt út fyrir heilbrigðiskerfið en hlutabréfavísitölur tóku dýfu í kauphöllinni í Stokkhólmi í dag að sögn SVT. Féll OMXS-vísitalan um 2,1 prósent sem nægði til að þurrka út alla hækkun hennar það sem af er ári.

Fleiri vísitölur í Evrópu féllu í dag með bréf fyrirtækja í flug- og hótelrekstri í broddi fylkingar. DAX-vísitalan í Frankfurt lækkaði um 2,7 prósent, CAC40 í París um það sama og FTSE100 í London um 2,3 prósent.

Expressen

Ystads Allehanda

mbl.is