Greina andlit á götum London

Lögreglan segir að henni beri skylda til að nýta sér …
Lögreglan segir að henni beri skylda til að nýta sér nýjustu tækni til að koma í veg fyrir glæpi. Mynd/AFP

Breska lögreglan mun á næstunni taka í notkun myndavélakerfi á götum Lundúnaborgar með andlitsgreingartækni. Hugmyndin er að þær verði í notkun í fimm til sex tíma á dag á ákveðnum svæðum og upplýsingar úr þeim samkeyrðar við lista yfir brotamenn sem eftirlýstir eru fyrir alvarlega glæpi.

Lögreglan segir myndavélarnar geta greint rétt andlit í um 70 prósent tilfella, en samkvæmt frétt BBC sýna sjálfstæðar rannsóknir fram á töluvert minni nákvæmni. Skiptar skoðanir virðast þó vera á ágæti svona myndavélakerfa, en ákveðinn hópur telur að um sé að ræða aðför að frelsi einstaklingsins og brot á friðhelgi einkalífsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni verða myndavélarnar þó kirfilega merktar og aðeins staðsettar á afmörkuðu svæði. Þá verður upplýsingum um myndavélarnar dreift með þar til gerðum bæklingi.

Nick Ephgrave aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við BBC að lögreglunni beri skylda til að nýta alltaf nýjustu tækni til að bæta öryggi borgaranna. Þá sagði hann rannsóknir sýna að almenningur væri hlynntur notkun á slíkum búnaði.

„Við viljum öll búa og starfa í öruggri borg. Almenningur gerir ráð fyrir að við nýtum okkur þá tækni sem er til staðar til að koma í veg fyrir glæpi. Á sama tíma viljum við auðvitað virða mannréttindi og friðhelgi einkalífsins. Við teljum að þetta skref uppfylli alla þessa þætti.“

Ephgrave tekur einnig fram að myndavélarnar geti haft upp á týndum börnum og fullorðnum einstaklingum sem þurfa aðstoð.

Búið er að setja upp myndavélakerfið á tíu stöðum í London, meðal annars við Stratford‘s Westfield-verslunarmiðstöðina og á West End.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert