Grunur um kórónatilfelli í Malmö

Bráðamóttaka Háskólasjúkrahúss Skánar í Malmö í Svíþjóð.
Bráðamóttaka Háskólasjúkrahúss Skánar í Malmö í Svíþjóð. Ljósmynd/Wikipedia.org/David Castor

Tveir sjúklingar hafa verið í einangrun á Háskólasjúkrahúsi Skánar í Malmö í Svíþjóð síðan í gær vegna gruns um að þeir séu smitaðir af kórónaveirunni en fólkið kvartar yfir öndunarörðugleikum. Niðurstöður greiningar ættu að liggja fyrir síðar í dag.

„Við hikum ekki við að taka sýni hjá fólki sem hefur verið á ferðalagi í Kína og kemur heim með einkenni í öndunarvegi,“ sagði Eva Gustafsson, settur sóttvarnalæknir á Skáni, í samtali við sænska dagblaðið Sydsvenskan í gærkvöldi. Segir hún þá engu skipta hvort leið fólks hafi legið um borgina Wuhan, sem faraldurinn rekur upphaf sitt til.

„Einangrun er hefðbundið verklag við smitandi sjúkdómum,“ sagði Gustafsson enn fremur og bætti því við að næstu skref réðust af greiningarniðurstöðu í tilfelli tvemenninganna. Eitt tilfelli, þar sem grunur lék á smiti af kórónaveiru, hefur áður komið upp í Svíþjóð en ekki reyndist þar um smitaðan einstakling að ræða. Tveir í viðbót hafa sætt rannsókn en þeir reyndust heldur ekki smitaðir.

Gustafsson tekur fram að fólk sem hafi verið á ferð um áhættusvæði, svo sem í eða nálægt Wuhan í Kína, og finni til flensulíkra einkenna eða óþæginda í öndunarvegi innan tveggja vikna frá heimkomu skuli setja sig í samband við heilsugæslu.

„Þá biðjum við fólk að hringja í síma 1177. Það er ekki góð hugmynd að mæta og fá sér sæti í biðstofunni. Þeim sem hringja er svo leiðbeint um næstu skref,“ sagði Gustafsson.

Blóðbankinn í Ósló gerir ráðstafanir

Í Noregi greinir ríkisútvarpið NRK frá því í morgun að Blóðbankinn í Ósló hafi nú gripið til þeirrar varúðarráðstöfunar að taka ekki við blóðgjöfum frá fólki sem farið hefur um alþjóðlega flugvelli síðustu 14 dagana á undan vegna ferðalaga erlendis. Ráðstöfunin gildir því ekki um farþega í innanlandsflugi í Noregi þótt farið sé um alþjóðlegan flugvöll, svo sem Gardermoen.

Hefur þeim sem eiga tíma í blóðgjöf næstu tvær vikur verið sent SMS-skeyti þar sem greint er frá þessu og þeir sem verið hafa á ferðalagi síðustu tvær vikurnar beðnir að fresta heimsókn sinni þar til tvær einkennalausar vikur eru liðnar frá heimkomu.

„Við sendum þetta út svo fólk sé ekki að koma fýluferð,“ segir Lise Sofie H. Nissen-Meyer, sviðsstjóri blóðgjafasviðs hjá blóðbankanum.

Are S. Berg, yfirlæknir við Lýðheilsustofnun Noregs, Folkehelseinstituttet, gaf það út í gær við NRK að Norðmenn, sem staddir eru í Noregi og hafi ekki verið á ferðalagi um áhættusvæði kórónaveirunnar upp á síðkastið, hefðu ekkert að óttast. „Fólk sem verið hefur á ferð um þessi svæði og finnur til einkenna verður að setja sig í samband við heilbrigðiskerfið,“ sagði Berg.

Fólk, sem þegar hefur gefið blóð og finnur til sjúkdómseinkenna, er beðið að hafa tafarlaust samband við blóðbankann og verði þá metið hvort óhætt teljist að nota blóð viðkomandi. Ekki er ljóst enn sem komið er hvort aðrir blóðbankar í Noregi muni fylgja fordæmi Óslóarbankans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert