Sarec hættir sem forsætisráðherra

Marjan Sarec í desember síðastliðnum.
Marjan Sarec í desember síðastliðnum. AFP

Majan Sarec, forsætisráðherra Slóveníu, ætlar að segja af sér ráðherradómi. Hann vill að nýjar kosningar verði haldnar eftir aukna spennu innan fimm flokka minnihlutastjórnar hans.

„Með þessum þingmönnum og þessari samsteypustjórn get ég ekki uppfyllt væntingar almennings,“ sagði hann við blaðamenn.

„Það heiðarlegasta sem við getum gert er að halda snemmbúnar kosningar … og spyrja fólk hvort það treystir mér og vilji að ég haldi áfram starfi mínu,“ bætti hann við.

Sarec, sem varð forsætisráðherra í september 2018, er sá yngsti til að gegna embættinu í Slóveníu. Hann er 42 ára og var áður þekktur grínisti í heimalandinu.

Andrej Bertoncelj hefur einnig greint frá því að hann muni hætta sem fjármálaráðherra eftir deilur um fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

mbl.is