„Við verðum að tala við Rússland“

Karina Radchenko, ungmennafulltrúi á vettvangi Evrópuráðsins.
Karina Radchenko, ungmennafulltrúi á vettvangi Evrópuráðsins. Ljósmynd/Karina Radchenko

„Mikilvægt er að hætt verði að notast við þá misheppnuðu aðferðafræði að einangra og hunsa Rússland með sínar tugi milljóna borgara og draga upp þá mynd af rússnesku þjóðinni að hún sé óvinveitt enda er fjöldi Rússa sem styður Úkraínu og vill frið.“

Þetta segir Karina Radchenko, ungmennafulltrúi á vettvangi Evrópuráðsins, í samtali við mbl.is en hún var stödd hér á landi í nóvember vegna heimsþing alþjóðasamtakanna Women Political Leaders (WPL). Radchenko er frá Úkraínu en heimahérað hennar er Donetsk í austurhluta landsins hvar átök hafa reglulega geisað á undanförnum árum á milli úkraínska hersins og uppreisnarmanna sem studdir eru af Rússum.

Radchenko segir samskipti lykilatriði við að koma á friði og að hlusta á andstæð sjónarmið. „Við þurfum að ræða milliliðalaust við Rússa til þess að koma í veg fyrir misskilning.“ Sem ungmennafulltrúi hafi hún fengið tækifæri til þess að ræða við ungt fólk frá Rússlandi á alþjóðlegum ráðstefnum sem eins og hún og fleiri vilja fátt frekar en frið.

„Dreymir um framtíð án stríða“

„Þau vilja frið, rétt eins og við Úkraínumenn, og dreymir um framtíð án stríða,“ segir Radchenko. Það þjóni hagsmunum þeirra sem hagnast á stríðum að þagga niður í óbreyttum borgurum í þeim löndum sem eiga í deilum og sá hatri á milli þjóða. Saman sé hins vegar hægt að finna ásættanlegar lausnir fyrir báða aðila.

Þannig sé nauðsynlegt að eiga samtal við rússnesk stjórnvöld. Mikilvægt sé að leitað sé diplómatískra lausna í stað hernaðarlegra. „Friður hefst alltaf á samtali. Við verðum þess vegna að tala við Rússland þrátt fyrir að margt sé flókið í þeim efnum,“ segir Radchenko. Mikilvægt sé enn fremur að hleypa sem flestum að borðinu.

AFP

„Það er sérstaklega mikilvægt að að gera venjulegu fólki mögulegt að taka þátt, óbreyttum borgurum, fórnarlömbum átakanna, sjálfboðaliðum og aðgerðasinnum frá báðum hliðum deilunnar. Þar með talið ungmenn og konur sem eiga beinna hagsmuna að gæta af friðarumleitunum og eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif á ákvarðanir sem tengjast þeim,“ segir Radchenko.

Hagkvæmara sé að vera löghlýðinn

Þannig geti ekkert annað en friður bætt fyrir þær miklu fórnir sem hafa verið færðar. Mikilvægt sé að friðargæsla hafi það eingöngu að markmiði að gæta friðarins en ekki pólitískra hagsmuna. Spurð um spillingu í Úkraínu segir Radchenko að þar skipti máli að breyta lögum og reglum. Spilling þrífist á meðan hagnaðarvon sé talin felast í henni. Fyrir vikið þurfi að gera gegnsæi og löghlýðni að hagkvæmari en spillingu.

„Við þurfum að viðurkenna að spillingu verður ekki algerlaga útrýmt í einu vetfangi. Það tekur tíma og kallar á kerfisbundna vinnu á öllum stigum ákvarðanatöku,“ segir Radchenko. Frá því Úkraína hafi öðlast sjálfstæði fyrir 28 árum hafi stjórnmálaflokkar ítrekað lofað því að taka á spillingu en innan óraunhæfra tímamarka. Þegar þau tímamörk hafi ekki staðist hafi áherslan á það að koma á umbótum minnkað.

Baráttan gegn spillingu sé þannig langhlaup og taki tíma. Leggja þurfi áherslu á að taka á stórum spillingarmálum frekar en minniháttar tilvikum. Radchenko segir ungt fólk geta gegnt lykilhlutverki í þessum efnum. Það hafi hagsmunum að gæta vegna framtíðarinnar og þau séu ólíklegri til þess að hafa gerst þátttakendur í spillingu.

Miklar auðlindir og mikill mannauður

Spurð að lokum um framtíð Úkraínu segir Radchenko að hún hafi fulla trú á því að heimaland hennar geti átt bjarta framtíð fyrir höndum. Landið sé auðugt bæði af náttúruauðlindum og mannauði og eigi sér mikla framtíðarmöguleika. Ástandið í dag sé viðkvæmt en það feli einnig í sér mikil tækifæri. Ekki síst til fjárfestinga. Þannig sé atvinnulíf landsins að færast frá þungaiðnaði í áttina að hátækni og nýsköpunar.

Hlutskipti Úkraínu sé að skapa ákveðið jafnvægi á milli vesturs og austurs með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar. Það verkefni sé áskorun og kalli á lausnir sem engin fordæmi séu fyrir. Þetta muni ekki takast án fyrirhafnar og þar þurfi allir að koma að málum, bæði stjórnvöld og almenningur. Framlag hvers og eins skipti þar máli.

AFP
mbl.is