Afneita réttvísinni

Charlotte Charles móðir Harry Dunn átti fund með utanríkisráðherra Bretlands …
Charlotte Charles móðir Harry Dunn átti fund með utanríkisráðherra Bretlands í gær. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að bandarísk yfirvöld afneiti réttvísinni með því að hafna framsalskröfu breskra yfirvalda á hendur eiginkonu bandarísks diplómats sem varð völd að banaslysi í Bretlandi í sumar.

Móðir unga mannsins sem lést í slysinu fagnar ummælum forsætisráðherra en segir jafnframt að orð nægi ekki. Johnson gagnrýnir ákvörðun utanríkisráðherra Bandaríkjanna um að neita að framselja Anne Sacoolas til Bretlands líkt og utanríkisráðherra Bretlands, Dominic Raab, og innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel. 

Harry Dunn var nítján ára er hann lést eft­ir árekst­ur fyr­ir utan banda­ríska her­stöð 27. ág­úst. Anne Sacoolas, sem játaði að hafa ekið á röngum vegarhelmingi, var ákærð í des­em­ber fyr­ir að hafa valdið dauða drengs­ins með glæfra­akstri. 

Foreldrar Dunn áttu fund með Raab í gær og segja í samtali við Guardian að fundurinn hafi verið góður og þau hafi átt heiðarlegt samtal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert