Herinn staðfestir að vélin hafi verið bandarísk

Bandaríski herinn hefur staðfest að vél hans hafi hrapað í …
Bandaríski herinn hefur staðfest að vél hans hafi hrapað í Afganistan í gær. Um er að ræða Bombardier E-11A þotu. AFP

Bandaríski herinn hefur staðfest að flugvél sem brotlenti í gærmorgun í Afganistan hafi verið á hans vegum. Sonny Leggett ofursti í hernum sagði að meðan enn væri verið að rannsaka orsök slyssins væri ekkert sem benti til þess að hún hefði verið skotin niður.

Flugvélin brotlenti í austurhluta Afganistan á Dek Yak-svæðinu í Ghazni-héraðinu klukkan 13:10 að staðartíma, eða klukkan 8:40 að íslenskum tíma. Svæðið er að stórum hluta undir yfirráðum talíbana sem gerir embættismönnum erfiðara fyrir að komast þangað.

Enn er óljóst hversu margir voru um borð í vélinni.

Talíbanar birtu myndir í gær sem sýndu flugvél sem hafði hrapað og var hún merkt Bandaríkjaher. Vélin er af gerðinni Bombardier E-11A, en slíkar vélar hafa verið notaðar til rafræns eftirlits yfir Afganistan.

Upphaflega var greint frá því að vélin væri í eigu ríkisflugfélagsins Ariana, en forstjóri félagsins staðfesti fljótlega í kjölfarið að engin vél frá fyrirtækinu hefði hrapað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert