Hjólabuxurnar fullar af stolnum símum

Hér sjást hjólabuxurnar sem þjófurinn fyllti af farsímum.
Hér sjást hjólabuxurnar sem þjófurinn fyllti af farsímum. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Hollenska lögreglan handsamaði símaþjóf á rokktónleikum í Amsterdam á dögunum, en sá var með þrjátíu farsíma ofan í þröngum hjólabuxum sem hann klæddist. Þjófurinn var stöðvaður eftir að tónleikagestir létu lögreglu vita.

Um var að ræða tónleika með bandarísku sveitinni Sum 41, en hollenska lögreglan ákvað að vera með aukinn viðbúnað á staðnum vegna ábendingar frá belgísku lögreglunni um að yfir 50 farsímum hefði verið stolið á tónleikum sömu hljómsveitar í Antwerp fyrir skemmstu.

Sá handtekni er rúmenskur ríkisborgari og þykir líklegt að hann sé í skipulögðum glæpasamtökum. Ekki liggur þó fyrir hvort hann hafi átt sér vitorðsmenn á tónleikunum í Amsterdam, eða hvort hann hafi sjálfur stolið öllum þeim þrjátíu símum sem á honum fundust.

Símar af hinum ýmsu gerðum fundust á þjófnum.
Símar af hinum ýmsu gerðum fundust á þjófnum. Ljósmynd/Hollenska lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert