Kallaði Boris sjálfumglaðan og hrokafullan hálfvita

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Skoski leikarinn John Hannah fór vægast sagt ófögrum orðum um Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á samfélagsmiðlinum Twitter á sunnudaginn þar sem hann tjáði sig um tíst ráðherrans varðandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Forsætisráðherrann greindi frá því í tísti sínu að hann hefði undirritað útgöngusamning Bretlands fyrr um daginn. Bretar myndu ganga úr Evrópusambandinu 31. janúar og þar með væri lýðræðisleg niðurstaða þjóðaratkvæðisins árið 2016 uppfyllt.

Sagði ráðherrann enn fremur að undirskriftin markaði nýjan kafla í sögu bresku þjóðarinnar. Viðbrögð Hannah eru á þá leið að segja forsætisráðherranum að fara norður og niður og kalla hann „slímugan, feitan, sjálfumglaðan, hrokafullan hálfvita.“

Leikarinn sagði enn fremur að sagan myndi draga upp rétta mynd af ráðherranum, hann væri smækkuð útgáfa af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en Hannah er mjög andvígur því að Bretar segi skilið við Evrópusambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina