Ræna börnum og þvinga í hernað

AFP

Fimm milljónir barna þurfa á mannúðaraðstoð að halda á Sahel-svæðinu í Afríku í ár vegna hernaðarátaka í héraðinu. Frá því í upphafi árs hafa yfir 670 þúsund börn sem eru búsett víðs vegar á svæðinu þurft að flýja heimili sín, að því er segir í nýrri skýrslu frá UNICEF.

Marie-Pierre Poirier, svæðisstjóri UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku, segir að ráðist hafi verið á börn, þeim rænt eða þvinguð í barnahernað vegna átaka í Búrkína Fasó, Malí og Níger.

Þegar við förum yfir ástandið í Mið-Sahel erum við agndofa yfir því hvað ofbeldið hefur farið stigvaxandi gagnvart börnum, segir hún. „Þau eru drepin, limlest, beitt kynferðisofbeldi og hundruð þúsunda barna hafa upplifað skelfilega hluti,“ segir hún.

AFP

Ofbeldisverkum gagnvart börnum hefur fjölgað mjög og í Malí voru tilkynntar yfir 570 alvarlegar árásir á börn á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Yfir 3.300 skólum hefur verið lokað í löndunum þremur (Búrkína Fasó, Malí og Níger)  eða þeir eru ekki starfandi lengur. Alls hefur þetta áhrif á 650 þúsund börn og 16 þúsund kennara.

Yfir 700 þúsund börn yngri en fimm ára þjást af alvarlegri vannæringu og þurfa á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert