Vilja opinbera afsökun vegna skopmyndar

Skopmyndin í Jótlandspóstinum í gær.
Skopmyndin í Jótlandspóstinum í gær. AFP

Danska dagblaðið Jótlandspósturinn hefur neitað að biðjast afsökunar á skopmynd sem birtist í blaðinu í gær þar sem myndefnið er kórónafaraldurinn sem kom fyrst upp í Wuhan-héraði í Kína. Skopmyndin sýnir kínverska fánann en í stað gulu stjarnanna á fánanum hefur verið komið fyrir teikningum af kórónavírusnum.

Kínverska sendiráðið í Danmörku sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem skopmyndin var sögð „móðgun við Kína“ sem „særði tilfinningar kínversku þjóðarinnar“. Sagði sendiráðið að myndin færi út fyrir „siðferðisleg mörk tjáningarfrelsisins“ og fór fram á að bæði dagblaðið og skopmyndateiknarinn Niels Bo Bojesen iðruðust vegna mistaka sinna og bæðu Kínverja opinberlega afsökunar að því er segir í frétt AFP.

Ritstjóri Jótlandspóstsins, Jacob Nybroe, sagði í morgun að blaðinu dytti ekki í hug að gera grín að stöðu mála í Kína, þar sem um fjögur þúsund manns eru sýkt af vírusnum og um eitt hundrað hafa látist af völdum hans, en neitaði að biðjast afsökunar. „Við getum ekki beðist afsökunar á einhverjum sem við teljum ekki að sé rangt.“

Þannig hefði Jótlandspósturinn engan ásetning um að gera lítið úr faraldrinum eða gera grín að honum enda teldi blaðið ekki að skopmyndin gerði það. „Mér virðist að hér sé um að ræða ólíkan menningarlegan skilning,“ sagði Nybroe enn fremur.

Þá segir í fréttinni að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem skopmyndir í dagblaðinu séu umdeildar. Þannig er rifjað upp að skopmyndir af Múhameð spámanni múslima hafi valdið miklum mótmælum í múslimaríkjum árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert