Móðir barnanna grunuð um morð

Deirdre og Andrew McGinley ásamt börnum sínum Conor, Darrach og …
Deirdre og Andrew McGinley ásamt börnum sínum Conor, Darrach og Carla. Ljósmynd/Írska lögreglan

Móðir írsku systkinanna sem fundust látin á heimili sínu síðastliðinn föstudag hefur verið handtekin, grunuð um morð. Irish Times greinir frá.

Þau Conor, Darragh, og Carla, níu, sjö og þriggja ára gömul, fundust látin á heimili sínu í Dyflinni á föstudagskvöld eftir að leigubílstjóri hafði komið að móðurinni í örvinglunarástandi á götu úti.

Leigubílstjórinn hugðist koma móðurinni heim til hennar, en þegar þangað var komið kom hann auga á miða á hurðinni með leiðbeiningum: „Ekki fara upp, hringið á neyðarlínuna.“

Leigubílstjórinn gerði lögreglu viðvart og voru börnin öll úrskurðuð látin á heimili sínu, en móðirin var flutt til aðhlynningar á sjúkrahús. Við útskrift hennar af sjúkrahúsinu var hún handtekin og leidd beinustu leið á lögreglustöðina.

Faðir barnanna var ekki heima þegar atvikið átti sér stað en kom heim um það leyti sem sjúkraflutningamenn mættu á staðinn. Hann hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar andlát barna sinna, sem hafi átt bjarta framtíð, og kveðst hafa átt erfitt með hvern andardrátt síðan hann frétti af andláti þeirra.

Móðir barnanna er barnahjúkrunarfræðingur, en hún var í leyfi frá störfum vegna álags og hafði glímt við þunglyndi um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert