Biður um erfðaefni frá Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Þekktur bandarískur dálkahöfundur sem segir að henni hafi verið nauðgað af Donald Trump á tíunda áratug síðustu aldar hefur óskað eftir erfðaefni frá forsetanum.

Til stendur að bera það saman við erfðaefni sem fannst á kjól hennar.

Jean Carroll, 76 ára, segist hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af Trump í mátunarklefa verslunarinnar Bergdorf Goodman í New York.

Hún kærði forsetann fyrir ærumeiðingar í nóvember og sagði að afneitun hans á árásinni meintu, þar sem hann sagði: „hún er ekki mín týpa“ hafi skaðað orðspor hennar og feril.

Sem lið í því dómsmáli hefur Trump verið beðinn um að fara í læknispróf til að hægt sé að bera erfðaefni hans saman við erfðaefni úr „ókunnum karlmanni“ sem hefði fundist á svörtum kjól sem Carroll klæddist þegar hin meinta nauðgun átti sér stað.

„Búið er að rannsaka kjólinn og við höfum niðurstöðurnar. Lögmaður minn hefur óskað eftir erfðaefni frá Trump,“ skrifaði Carroll á Twitter.

Forsetinn segir Carroll, sem skrifar pistla í tímaritið Elle, hafa logið þegar hún greindi frá atvikinu í viðtali við The Hill í júní í fyrra. Þar með varð hún sextánda konan sem sakaði Trump um kynferðislegt ofbeldi eftir að hann varð forseti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert