Lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti í dag yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna kórónaveirufaraldursins sem kom fyrst upp í Wuhan-héraði í Kína.

Fram kemur í frétt AFP að um sé að ræða aðgerðir sem sjaldan sé gripið til en gætu greitt fyrir alþjóðlegri samræmingu við að takast á við sjúkdóminn.

Haft er eftir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra WHO, að stofnunin hefði mestar áhyggjur af því að sjúkdómurinn ætti eftir að berast til ríkja sem búi við veikari heilbrigðiskerfi en mörg önnur.

Einnig segir í fréttum AFP að WHO telji enga ástæðu til þess að setja hömlur á ferðalög til Kína eða viðskipti við landið vegna kórónavírussins, en nokkur flugfélög hafa lýst því yfir að þau hefðu aflýst flugferðum til Kína.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir ekki með, og leggst í raun gegn, hömlum,“ sagði Ghebreyesus á blaðamannafundi í Genf í Sviss í dag.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert