Aftöku nauðgara frestað

AFP

Indverskur dómstóll hefur fyrirskipað að aftöku fjögurra manna sem dæmdir voru fyrir hópnauðgun í Delí árið 2012 sem fram átti að fara á morgun verði frestað um óákveðinn tíma. Hengja átti fjórmenningana.

Jyoti Singh, 23 ára nema í sjúkraþjálf­un, var nauðgað af fimm mönn­um og ung­lings­pilt eft­ir að hún þáði far með þeim þegar hún var á heim­leið eft­ir bíó með vini sín­um. Hún lést þrett­án dög­um síðar af völd­um áverka sem hún hlaut við árás­ina. Árásin vakti gríðarlega reiði um allan heim og ekki síst á Indlandi, þar sem fólk tók þátt í mótmælum vikum saman.

Til stóð að hengja þá alla á sama tíma, í fyrramálið klukkan 6. Enginn hefur verið tekinn af lífi á Indlandi frá því árið 2015. Fimmti árásarmaðurinn, sem talið er að hafi verið höfuðpaurinn í nauðguninni, fannst látinn í klefa sínum og er talið að hann hafi hengt sig. 17 ára piltur sem tók þátt í ódæðinu dvaldi í unglingafangelsi í þrjú ár fyrir aðild að árásinni. 

Frestunin skýrist af því að einn mannanna hefur enn möguleika á að áfrýja dómnum til æðsta dómsstigs. Einn þeirra hefur beðið forseta landsins um að veita sér miskunn en slíkt er afar óalgengt í indversku réttarfari. 

mbl.is