Beðið eftir Brexit í Bretlandi

AFP

Fjölmenni er saman komið í miðborg London, höfuðborg Bretlands, til þess að fagna því þegar landið gengur formlega úr Evrópusambandinu (Brexit) klukkan 23.00.

Bretar hafa verið í Evrópusambandinu, og áður forvera þess Efnahagsbandalagi Evrópu, allt frá árinu 1973 eða í tæplega hálfa öld. Meirihluti breskra kjósenda samþykkti að ganga úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór sumarið 2016.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mund flytja ræðu í tilefni af útgöngunni klukkan 22.00. Margir hafa tekið forskot á sæluna og hafa í raun verið fagnaðarlæti víða í Bretlandi í dag. Meðal annars hefur verið skotið upp flugeldum af þessu tilefni.

Málið er þó eftir sem áður umdeilt og ljóst að ekkert tilefni til þess að fagna að mati þeirra sem vildu að Bretland væri áfram innan Evrópusambandsins. Fyrir vikið hefur Johnson hvatt til þess að andstæðingum útgöngunnar verði sýnd eðlileg tillitssemi.

AFP

Þegar útgangan tekur formlega gildi tekur við aðlögunartímabil til næstu áramóta þar sem Bretland verður áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins og tollabandalagi þess. Tíminn verður notaður til þess að reyna að semja um viðskiptasamning.

Bresk stjórnvöld hyggjast nota tímann einnig til þess að semja um fríverslun við önnur ríki eins og Bandaríkin, Japan, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjáland. Íslensk stjórnvöld hafa samið um við Breta um að ekkert breytist varðandi tengsl ríkjanna fram að áramótum og er ætlunin að fyrir þann tíma verði samið um framtíðartengsl landanna.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert