Fleiri smitaðir en af SARS-veirunni

Þessi mynd er tekin rétt hjá sjúkrahúsi í Wuhan en …
Þessi mynd er tekin rétt hjá sjúkrahúsi í Wuhan en þessi eldri maður hrundi niður og lést úti á götu í borginni í gær. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa fyrirskipað þegnum sínum að forðast ferðalög til Kína eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna kórónaveirunnar sem á upptök sín í kínversku borginni Wuhan. Alls eru 213 látnir og fleiri eru sýktir en þegar SARS-farsóttin geisaði fyrir tæpum tveimur áratugum.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi og lagt bann við ferðalögum til Kína og að þeir sem þegar eru þar eigi að forða sér hið snarasta.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, segir að það sem stofnunin óttist mest sé hvað gerist ef veiran breiðist til landa þar sem heilbrigðiskerfi eru léleg og veikburða. 

Tæplega 10 þúsund hafa smitast.
Tæplega 10 þúsund hafa smitast. AFP

Japan, líkt og Þýskalandi, Bretland og fleiri ríki hafa þegar gert, hvatti þegna sína í dag til þess að forðast ferðalög til Kína en krafa Bandaríkjanna er mun afdráttarlausari en annarra ríkja. Smit hafa greinst í yfir 20 löndum og hafa ríki eins og Mongólía bannað fólki að fara yfir landamærin til Kína. Eins hafa Rússar lokað landamærum sínum við Kína í austri. Nokkur ríki hafa bannað ferðalög til Wuhan og annarra borga í Hubei-héraði. Ítalía og Ísrael lokuðu á allt flug til Kína í gær líkt og nokkur flugfélög höfðu þegar gert.

Kínversk yfirvöld tilkynntu í dag að til standi að senda leiguflugvélar eftir íbúum Hubei-héraðs sem eru staddir erlendis og þeir sem eru frá Wuhan verði sendir í einangrun þangað. 

Franskir ríkisborgarar á leið heim frá Wuhan.
Franskir ríkisborgarar á leið heim frá Wuhan. AFP

Fyrsta smit manna á milli í Bandaríkjunum kom upp í gær er ljóst var að maður í Chicago hafði smitast af veirunni af eiginkonu hans sem hafði ferðast til Wuhan. Víða í heiminum ríkir mikill ótti og má meðal annars nefna sex þúsund farþega um borð í skemmtiferðaskipi í ítalskri höfn. Þeir voru settir í einangrun um borð í skipinu eftir að tveir kínverskir farþegar veiktust. Síðar kom í ljós að þeir voru ekki smitaðir af kórónaveirunni.

AFP

Líkt og hér kom fram að framan eru 213 staðfest andlát af völdum veirunnar. 43 ný dauðsföll voru tilkynnt í dag og eru þau öll fyrir utan eitt í Hubei. Í flestum tilvikum eru það eldri borgarar sem hafa dáið af völdum veirunnar. Alls eru 9.692 staðfest smit en alls voru SARS-smitin 8.096 talsins. Alls létust 774 úr SARS og hún dreifðist til rúmlega tuttugu landa. 102 þúsund manns eru undir eftirliti í Kína vegna gruns um smit.

WHO hefur fimm sinnum lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu frá því það var gert í fyrsta skipti. Vegna svínaflesnu, mænuveiki, Zika-veirunnar og í tvígang vegna ebólu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert