Johnson fagnar upphafi nýs tímabils

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hyggst fagna upphafi nýrra tíma í …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hyggst fagna upphafi nýrra tíma í ræðu sem hann mun flytja klukkan 22 í kvöld, klukkustund áður en Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hyggst fagna upphafi nýrra tíma í ræðu sem hann mun flytja klukkan 22 í kvöld, klukkustund áður en Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu. 

Bretland var eitt af fyrstu ríkjunum sem gekk í Evrópusambandið, sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu, árið 1973 eftir að sambandið var stofnað af sex Evrópuríkjum árið 1958. Vera Bretlands í ESB spannar því nær hálfa öld en því lýkur í kvöld. 

Aðskilnaðarferlið hefur hins vegar verið langt og strangt en tæplega fjögur ár eru síðan meirihluti breskra kjós­enda samþykkti í þjóðar­at­kvæðagreiðslu að yf­ir­gefa Evr­ópu­sam­bandið. Upphaflega stóð til að Bretland gengi úr ESB 29. mars í fyrra. 

Í ræðunni mun Johnson segja að Brexit sé „ekki endalokin heldur upphaf,“ að því er fram kemur í frétt BBC um innihald ræðu forsætisráðherrans. Þá hyggst hann sameina þjóðina. „Þetta er upphaf nýs tímabils þar sem við þurfum ekki lengur að sætta okkur við að möguleikar okkar í lífinu — möguleikar fjölskyldna ykkar — fari eftir því hvar á landinu þau ólust upp. Þetta er augnablikið þar sem við sameinumst og förum á næsta stig,“ segir í ræðu Johnson. 

Stuðningsmenn Brexit munu safnast saman við Þingtorgið síðar í dag og niðurtalningu verður varpað á Downingstræti þar til klukkan slær ellefu.

mbl.is

Bloggað um fréttina