Boða heræfingar við Noreg

Rússneska beitiskipið Ustinov marskálkur verður meðal þeirra sem taka þátt …
Rússneska beitiskipið Ustinov marskálkur verður meðal þeirra sem taka þátt í flugskeytaæfingu úti fyrir Nordland í Noregi miðvikudag til föstudags í næstu viku. Ljósmynd/Wikipedia.org/Lphot Seeley

Rússneski sjóherinn hefur sett formlega tilkynningu inn í NOTAM, upplýsingakerfi flugmanna, um að hann muni loka hafsvæði í Noregshafi, úti fyrir Nordland-fylki í Noregi, vegna tilraunaskota flugskeyta í næstu viku, frá miðvikudegi til föstudags, klukkan 03 til 17, 02 til 16 að íslenskum tíma, alla dagana.

Auk sjálfs hafflatarins hafa Rússar lagt undir sig loftrými yfir fletinum upp að 66.000 feta hæð, eða rúmlega 20 kílómetra upp á við. Lokaða svæðið er skammt frá norsku oliuvinnslusvæði þar sem meðal annars olíuborpallurinn Aasta Hansteen er staðsettur.

„Okkur er kunnugt um að Rússar áætli enn einu sinni heræfingar í námunda við okkur og þeir færa sig stöðugt lengra í suður- og vesturátt,“ segir Morten Haga Lunde, yfirmaður norsku leyniþjónustunnar, við dagblaðið VG í dag.

Skilaboð til norskra yfirvalda

Lunde segir að þótt æfingin muni fara fram á alþjóðlegu hafsvæði megi túlka hana sem skilaboð til norskra yfirvalda og hluta af andófi Rússa við aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu NATÓ.

Rússneska beitiskipið Ustinov marskálkur (r. Маршал Устинов) og tundurspillirinn Kulakov aðstoðaraðmíráll (r. Вице-адмирал Кулаков), tvö af stærri stríðsfleyjum rússneska Norðurflotans, eru nú á leið til flotastöðvarinnar í Severomorsk á Kólaskaganum úr æfingum á Svartahafi og voru á Ermarsundi síðdegis í gær.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fylgist með heræfingum á Svartahafi um borð …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fylgist með heræfingum á Svartahafi um borð í beitiskipinu Ustinov marskálki 9. janúar. AFP

Lunde vitnar til nýlegra orða Haakon Bruun-Hanssen, æðsta yfirmanns norska hersins, um að Noregur eigi á hættu að lokast af að baki nýrrar rússneskrar varnarlínu sem sífellt færist lengra í suður- og vesturátt en rússneskur hermáttur hefur undanfarið orðið æ sýnilegri á hafsvæðum við Norður-Noreg, svo sem til dæmis mátti ráða af heræfingum Rússa samtímis norsku æfingunni Ocean Shield í haust og NATÓ-æfingunni Trident Juncture árið 2018.

VG

TV2

Fremover.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert