Brexit: Hvað er breytt?

Stuðningsmenn Brexit voru líklega flestir glaðir með gærdaginn.
Stuðningsmenn Brexit voru líklega flestir glaðir með gærdaginn. AFP

Eins og víða var greint frá gengu Bretar úr Evrópusambandinu klukkan 23.00 í gærkvöld. Boris Johnson forsætisráðherra sagði tímamörkin marka „dögun nýs tímabils“ og lofaði „raunverulegri endurnýjun á landsvísu“.

Eftir nótt þar sem margir fögnuðu en aðrir syrgðu brennur á vörum margra Breta spurningin um hvað breytist.

Á vef BBC er þessari spurningu svarað á hinn einfalda hátt: „Í fyrstu, ekki mikið.“ Þar segir enn fremur: „Ellefu mánaða aðlögunartímabil er hafið og Bretland mun að mestu leyti lúta Evrópusambandsreglum. Stærstu breytingarnar verða þegar aðlögunartímabilinu lýkur. Samt sem áður er Evrópusambandið nú hópur 27 ríkja en ekki 28.“

Stafrænni niðurtalningu var varpað á bústað forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Hér …
Stafrænni niðurtalningu var varpað á bústað forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Hér sést augnablikið þegar klukkan sló 00:00 og þar með voru Bretar gengnir út. AFP

Dómstóllinn hefur enn dómsvald

Nánar tiltekið mun Bretland áfram tilheyra tollabandalagi Evrópusambandsins og innri markaðnum. Reglur um fjórfrelsið munu enn gilda um Bretland og dómstóll Evrópusambandsins hefur enn þá dómsvald yfir Bretlandi.

Sömuleiðis mun fátt breytast fyrir hinn almenna breska ríkisborgara enn um sinn. Bretum er enn frjálst að ferðast innan Evrópusambandsins með sama óhindraða hætti og áður og eins er íbúum Evrópusambandsins frjálst að ferðast innan Bretlands. 

Víða um Bretland var fagnað í nótt. Hér sést kona …
Víða um Bretland var fagnað í nótt. Hér sést kona ein í teiti í Woolston Social Club í Warrington á Norðvestur-Englandi hella freyðivíni í glös. AFP

Út fyrir áramót

Stefnt er á að aðlögunartímabilinu ljúki 31. desember en menn eru ekki allir á sama máli um hvort það muni takast. Evrópusambandið hefur lýst yfir að það telji ólíklegt að það takist fyrir áramót að semja um viðskiptasamning við Bretland. Boris Johnson forsætisráðherra hefur þó ekki látið það á sig fá og segist frekar ætla út án samnings en að óska eftir framlengingu á aðlögunartímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert