Skeytin verði ekki opinber

Um er að ræða fyrsta skiptið sem bandarísk stjórnvöld viðurkenna …
Um er að ræða fyrsta skiptið sem bandarísk stjórnvöld viðurkenna að Trump hafi komið með beinum hætti að þeirri ákvörðun að draga til baka hernaðaraðstoðina. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kunngjörði seint í gærkvöldi að það hefði undir höndum 24 tölvupóstskeyti sem tengdu Donald Trump Bandaríkjaforseta við þá ákvörðun að draga til baka hernaðaraðstoð við Úkraínu. Um er að ræða fyrsta skiptið þar sem Bandaríkjastjórn viðurkennir að til séu gögn sem tengja forsetann beint við þessa ákvörðun. Stjórnin hefur hins vegar komið í veg fyrir að skjöl þessi verði gerð opinber og komist í hendur Bandaríkjaþings. 

Samkvæmt bréfi frá lögfræðingi innan fjárlagaráðs Bandaríkjanna sýna tölvupóstarnir „samskipti, annaðhvort frá forsetanum, varaforsetanum eða nánustu ráðgjöfum forsetans, er varða ákvarðanatöku forsetans um umfang, tímalengd og tilgang þess að draga til baka hernaðaraðstoðina við Úkraínu,“ að því er fram kemur á vef CNN.

Sakfelling ólíkleg

Eins og víða hefur komið fram hefur Trump verið sakaður um að hafa sett Úkraínumönnum það skilyrði fyrir hernaðaraðstoð að þeir hæfu rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og pólitískum andstæðingi Trumps. Trump var í kjölfarið ákærður fyrir embættisbrot en mjög ólíklegt þykir að hann verði sakfelldur, sér í lagi eftir að öldungadeildin hafnaði á föstudagskvöld frekari vitnaleiðslum í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert