Tókst að byggja sjúkrahús á 8 dögum

Sjúkrahúsið er nú fullbúið 1.000 rúmum og 1.400 heilbrigðisstarfsmenn hafa …
Sjúkrahúsið er nú fullbúið 1.000 rúmum og 1.400 heilbrigðisstarfsmenn hafa verið fluttir á svæðið. AFP

Annað af tveimur sjúkrahúsum sem Kínverjar réðust í byggingu á í borginni Wuhan, þar sem kórónaveiran á upptök sín, er tilbúið til notkunar. Aðeins tók átta daga að byggja Huoshenshan-sjúkrahúsið, en þar eru 1.000 rúm tilbúin fyrir sjúklinga þegar það verður opnað á morgun. Um 1.400 heilbrigðisstarfsmenn úr hernum, með reynslu af smitsjúkdómum, hafa verið fluttir á svæðið og munu starfa á sjúkrahúsinu.

Sjúkrahúsið verður tekið í notkun á morgun.
Sjúkrahúsið verður tekið í notkun á morgun. AFP

Yfir 14 þúsund manns hafa smitast af veirunni og yfir 300 látist, langflestir í Kína. Veiran hefur greinst í 24 löndum, þar á meðal Svíþjóð og Bretlandi, en aðeins eitt dauðsfall hefur átt sér stað utan Kína. 44 ára kínverskur karlmaður lést á Filippseyjum í dag eftir að hafa greinst með veiruna.

Nokkur ríki hafa ákveðið að loka landamærum sínum fyrir útlendingum sem nýlega hafa dvalið í Kína, og einnig ráðlagt þegnum sínum að forðast að ferðast þangað. Þá stefna G7-ríkin á að funda í byrjun vikunnar til að samræma aðgerðir sínar við að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert