„Líf mitt verður aldrei eins“

Margrét Annie Guðbergsdóttir segir farir sínar ekki sléttar eftir skurðaðgerð …
Margrét Annie Guðbergsdóttir segir farir sínar ekki sléttar eftir skurðaðgerð við úlnliðsbroti hjá lækni sem var gert að taka pokann sinn á Sørlandet-sjúkrahúsinu í Flekkefjord eftir dauðsföll sjúklinga og alvarlega fötlun annarra í kjölfar aðgerða. Þrátt fyrir að mega ekki framkvæma aðgerðir einn síns liðs þar sem maðurinn var aðeins á fyrsta ári sérnáms fékk hann stöðu á sjúkrahúsinu í Kristiansand sem nú hefur játað alvarlega handvömm. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Margrét Annie Guðbergsdóttir datt í baðherberginu heima hjá sér í Øyslebø í Lindesnes, skammt frá Kristiansand í Suður-Noregi, og úlnliðsbrotnaði í júlí í fyrra óraði hana ekki fyrir því að líklega væri starfsferli hennar lokið fyrir fullt og allt.

Margrét var send í aðgerð hjá skurðlækni sem var á fyrsta ári í sérnámi í bæklunarskurðlækningum, með þýsk sérfræðiréttindi í skurðlækningum, en ekki réttindi sem heimiluðu honum að framkvæma bæklunarskurðaðgerðir í Noregi án eftirlits.

Víða var þó pottur brotinn í þeim efnum, ekki síst á margra ára ferli mannsins við Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord í Vestur-Noregi þar sem ítrekuð og stórfelld mistök hans við aðgerðir leiddu til þess að fjöldi sjúklinga er fatlaður fyrir lífstíð auk þess sem þrír létu lífið. Alls hafa 28 mál komið á borð fylkislæknisins í Agder vegna Flekkefjord-sjúkrahússins, meðal annars mál þar sem framkvæmdar voru skurðaðgerðir sem ekki voru nauðsynlegar með tilliti til ástands sjúklinga.

Var læknir í rússneska hernum

Finn Åge Olsen var einn þeirra sem fóru í aðgerð hjá umræddum lækni sem leiddi til þess að taka þurfti af honum hægri fót við hné. Olsen hafði þó sérstaklega beðið um að gangast ekki undir aðgerð á Flekkefjord-sjúkrahúsinu en hafði ekkert val í þeim efnum.

Íslenskur læknir, sem starfaði lengi í Noregi og þekkir til skurðlæknisins, sem upphaflega er frá Kasakstan, segir hann hafa samið um styttingu sérnámstíma í Noregi vegna skurðlæknaréttinda sinna frá Þýskalandi, en áður hafi hann verið læknir í rússneska hernum. Sérgrein mannsins úr þýska náminu var slysaskurðlækningar eða „Unfallchirurgi“ á þýsku og segir íslenski læknirinn manninn hafa sóst eftir að öðlast réttindi sem bæklunarskurðlæknir í Noregi en það nám hafði hann nýhafið og var svokallaður LIS-læknir, eða „lege i spesialisering“ sem táknar að honum var algjörlega óheimilt að framkvæma skurðaðgerðir nema undir eftirliti til þess bærs yfirlæknis. Á því varð þó mikill og ítrekaður misbrestur.

En aftur að Margréti, sem býr ásamt Jóni Benediktssyni, manni sínum, trésmið á eftirlaunum, í Øyslebø. Hún var send í aðgerð á sjúkrahúsinu í Kristiansand viku eftir að hún datt, og þurfti þá að þreyja þorrann lengi í bið eftir að skurðlæknir væri laus. Að lokum er henni sagt að hún fari í aðgerð hjá þeim skurðlækni sem hér er til umfjöllunar.

„Hann sagði mér að þetta væri mjög alvarlegt brot og þyrfti að skrúfa úlnliðinn saman auk þess sem ég þyrfti að fá tvær plötur í handlegginn,“ segir Margrét í samtali við mbl.is í kvöld þegar hún rifjar upp það sem nú er orðið að mesta áfalli ævi hennar.

„Var allt í lagi þegar ég lokaði þessu“

„Ég vissi þá ekkert að þetta væri þessi læknir sem hefði verið í Flekkefjord,“ segir Margrét sem að lokum komst í aðgerðina eftir allar frestanirnar. „Hann sagðist hafa framkvæmt fjölda svipaðra aðgerða og þetta væri ekkert mál,“ segir Margrét. Hún gekkst svo undir aðgerðina daginn örlagaríka, er svo sett á hótel í Kristiansand yfir nótt og skoðuð daginn eftir. Er þarna var komið sögu kom í ljós að málið hafði ekki verið eins einfalt og læknirinn áður hafði fullvissað hana um.

„Þá segir hann við mig að aðgerðin hefði ekki tekist eins vel og talið var. „Það var allt í lagi með þig þegar ég lokaði þessu [skurðinum], það hefur bara eitthvað gerst eftir það,“ sagði hann við mig,“ rifjar Margrét upp sem varð verulega felmt við og vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Þetta var þó bara það fyrsta í röð áfalla.

„Svo sagði hann bara „já, við þurfum að skera þig aftur upp á morgun og svo bara fór hann og ég var gjörsamlega niðurbrotin,“ segir Margrét, „ég var með svo mikla verki að það var hræðilegt. Svo er ég búin að vera að fasta síðan kvöldið áður fyrir aðgerð númer tvö en þá kemur hann og segir við mig „heyrðu, það er ekki hægt að gera þetta í dag, það er svo rosalega mikið akútt [bráðatilfelli],“ og ég spurði bara „bíddu, ef ég er ekki akútt hvað er ég þá?“,“ segir Margrét og getur ekki varist hlátri þrátt fyrir skelfinguna sem hún rifjar upp frá síðasta sumri.

Gat ekki hreyft einn einasta fingur

Að lokum er Margréti tjáð að hún eigi að fara í aðgerð seint á föstudagskvöldi, enn á ný eftir ítrekaðar frestanir, og er þá skorin aftur. Læknirinn var þá einn við aðgerðina, þótt yfirlæknir bæklunardeildarinnar hefði átt að vera viðstaddur allan tímann vegna réttindaleysis þess sem aðgerðina framkvæmdi. Flekkefjord-maðurinn skar Margréti þá upp öðru sinni, tók allar fyrri skrúfur og plötur úr úlnliðnum og setti nýjar í staðinn.

Úlnlið Margrétar bókstaflega tjaslað saman í aðgerð sem þurft hefði …
Úlnlið Margrétar bókstaflega tjaslað saman í aðgerð sem þurft hefði tvo vana bæklunarskurðlækna til að framkvæma. Þess í stað skar réttindalaus læknir hana upp einn síns liðs seint á föstudagskvöldi og hefur Margréti verið höndin ónýt síðan. Ljósmynd/Aðsend

Daginn eftir kemur í ljós að Margrét getur ekki hreyft einn einasta fingur vinstri handar. Hún er þó útskrifuð heim á sterkum verkjalyfjum. „Ég var bara útúrdópuð og gat ekki sofið í rúmi í tvo mánuði, svaf bara í sófanum niðri af því að ég þurfti alltaf að hafa höndina uppi á sófabakinu svo hún yrði ekki fyrir hnjaski, þetta var ekkert líf,“ segir Margrét.

Í lok ágúst átti Margrét að fara í fyrstu skoðun en áður hafði heimilislæknirinn hennar tekið saumana úr skurðsárinu. Ekki vildi betur til en að Jón fékk þá blóðtappa í heila þegar hann var að aka konu sinni til læknisins og lenti sjálfur á spítala. „Það var bara allt í „kaos“,“ rifjar Margrét upp.

„Mátti ekki anda á mig“

Hjá heimilislækninum runnu tvær grímur á hjúkrunarfólk og lækninn sjálfan þegar í ljós kom að hreyfigeta fingra Margrétar var enn engin, löngu eftir aðgerð. Læknir skoðaði hana svo á sjúkrahúsinu í Kristiansand og komst að þeirri niðurstöðu að Margrét þyrfti að fara til sjúkraþjálfara til að liðka fingurna. Ekki leist honum á blikuna frekar en heimilislækninum.

Iðjuþjálfi tók svo við af sjúkraþjálfara og þar skall raunveruleikinn eins og blaut tuska framan í Margréti: Skaðinn væri varanlegur, hún yrði ekki betri. Þarna hafði Margrét framkvæmt eigin rannsóknir á lýðnetinu, auk þess að ræða við Finn Åge Olsen sem missti fótinn og hafði stigið fram einfættur í fjölmiðlum og rætt mál sitt. Þarna áttaði hún sig fyrst á því að læknirinn sem skar hana var sá sami og skilið hafði eftir sig blóði drifna slóð, bókstaflega, í Flekkefjord.

„Ég var í algjöru sjokki,“ segir Margrét og skyldi engan undra. Eftir að þetta kom í ljós hafi hún verið komin á hálan ís andlega. „Það mátti ekki anda á mig, þá var ég farin að grenja,“ segir hún.

Játuðu alvarlega handvömm

Það var svo í gærmorgun sem hjólin fóru að snúast. Þá barst henni símtal frá sjúkrahúsinu í Kristiansand og var tjáð að yfirstjórn sjúkrahússins viðurkenndi að alvarleg mistök hefðu átt sér stað. Hún var svo boðuð á fund á sjúkrahúsinu í gær. Þar lagði bæklunarlæknir spilin á borðið og greindi Margréti frá þeirri alvarlegu handvömm sem átt hefði sér stað.

Tveir bæklunarskurðlæknar, með full réttindi til þeirrar iðju, hefðu átt að koma að aðgerð brots hennar í sameiningu, ekki einn réttindalaus. „Hann sagði við mig að hann sjálfur hefði aldrei getað framkvæmt þessa aðgerð einn,“ segir Margrét.

Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játaði í gær að alvarleg mistök hefðu …
Sørlandet-sjúkrahúsið í Kristiansand játaði í gær að alvarleg mistök hefðu átt sér stað þegar réttindalaus læknir skar Margréti upp eftirlitslaus seint á föstudagskvöldi í fyrrasumar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Carsten R.D.

Nú stendur til að senda hana til bæklunarlæknis í Bergen, eins þess færasta í Noregi, til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður, og fer Margrét, sem er tæplega sextug, líklega aldrei út á vinnumarkaðinn aftur, að minnsta kosti ekki á þeim vettvangi sem hefur verið hennar, en hún hefur starfað sem aðstoðarmanneskja á sambýlum og umönnunarheimilum auk þess að vera persónuleg stuðningsmanneskja blindrar stúlku.

Þarf hjálp við allar daglegar athafnir

Daglegt líf hefur auk þess fengið á sig nýjan blæ þar sem Margrét er í raun einhent þótt vinstri höndin sé enn á henni tæknilega séð. „Líf mitt verður aldrei eins. Ég er með eina hönd og allt sem mér finnst skemmtilegt að gera get ég ekki gert,“ segir Margrét sem er mikil prjónakona.

Til að annast eldhússtörf hefur hún þurft að panta sér ýmis hjálpartæki frá Bandaríkjunum og Bretlandi, hnífa og önnur áhöld fyrir einhent fólk og sjálfvirkan krukkuopnara. „Ég get ekki opnað kókflösku einu sinni, ég þarf að fá hjálp við allt og því er ég ekki vön, ég er vön því að hjálpa fólki,“ segir Margrét og játar við eftirgrennslan að Jón maður hennar sé duglegur að aðstoða hana.

„Jú jú, hann er mjög duglegur að hjálpa mér við öll dagleg störf, ég gæti ekki átt betri mann,“ segir Margrét og gegnum símann má heyra Jón Benediktsson skella upp úr í stofu þeirra hjóna.

Nú hefst bótamál sem vafalítið mun taka einhvern tíma og Margrét býr sig undir stormanna iðukast. „Ég er mjög jákvæð að eðlisfari, ég þarf bara að læra á þessa nýju tilveru, læra að lifa með þessu,“ segir þessi tæplega sextugi Íslendingur í Øyslebø, æðruleysið uppmálað þrátt fyrir að vera fórnarlamb alvarlegra læknamistaka af hálfu skurðlæknis sem hefði ekki einu sinni átt að fá að gera aðgerð á henni.

mbl.is