Fór í gegnum „hræðilega þrekraun“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði pólitíska andstæðinga sína andstyggilega og miskunnarlausa og nafngreindi þar meðal annars Nancy Pelosi og Adam Schiff, þingmenn demókrata, í ræðu sem hann hélt á blaðamannafundi í Hvíta húsinu nú fyrir skömmu. Þar tjáði hann sig í fyrsta eftir að hafa verið sýknaður af ákæru um embættisbrot í öldungadeild þingsins í gær. 

Trump sagði reyndar að þetta væri ekki blaðamannafundur, þetta væri ekki ræða, heldur fögnuður, en hann sparaði svo sannarlega ekki stóru orðin í fögnuði sínum. Sagðist hafa farið í gegnum helvíti en staðið uppi sem sigurvegari í baráttunni gegn andstyggilegum demókrötum. Hann væri ekki í stuði til að fyrirgefa, hann hefði verið dreginn í gegnum „hræðilega þrekraun af óheiðarlegu og spilltu fólki“.

Sagðist forsetinn hafa orðið fyrir nornaveiðum sem staðið hefðu yfir í þrjú ár. Hann hefði glímt við spilltar löggur, leka og lygar. Slíkt ætti ekki að henda annan forseta. Sagði hann fólk hafa sagt við sig að aðrir forsetar hefðu eflaust ekki ráðið við þessar árásir. Ef sama hefði hent Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandríkjanna, væru eflaust margir í fangelsi.

Þegar hann minntist á spilltar löggur, tók hann sérstaklega fram að ef hann hefði ekki rekið James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, stæði hann líklega ekki hér. Trump sagði hann hræðilegan.

Hann ítrekaði að hann hefði farið í gegnum helvíti með fólkinu sínu, þrátt fyrir að hafa ekki gert neitt rangt. Sagðist hann vissulega hafa gert margt rangt í lífinu, en ekki í þessu tilfelli. Hann uppskar hlátur viðstaddra fyrir vikið. Svo lyfti hann upp eintaki af Washington Post þar sem stóð „Trump sýknaður“ á forsíðunni og sagði að hann gæti tekið blaðið með sér heim og rammað það inn. Þetta allt hefði verið ósanngjarnt gagnvart fjölskyldu hans og bandarísku þjóðinni.

Ræðan var nokkuð tilfinningaþrungin og notaði Trump drjúgan tíma í að þakka því fólki sem stóð með honum. Þá minntist hann líka á afrek sín og ríkisstjórnarinnar sem hann fullyrti að hefði gert meira en nokkur önnur ríkisstjórn á þremur árum.

Trump uppskar lófaklapp þegar hann lyfti upp Washington Post.
Trump uppskar lófaklapp þegar hann lyfti upp Washington Post. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Sigríður Laufey Einarsdóttir: TRUNMP
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert