Gefa út viðvörun vegna kynferðisbrota

Bandarísk yfirvöld hafa gefið út leiðbeiningar til þeirra sem ferðast …
Bandarísk yfirvöld hafa gefið út leiðbeiningar til þeirra sem ferðast til eða dvelja á Spáni. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa gefið út viðvörun til allra bandarískra ríkisborgara sem ferðast til eða dvelja á Spáni vegna mikillar fjölgunar á kynferðisbrotum þar í landi. Þá hefur bandaríski sendiherrann á Spáni gefið út leiðbeiningar fyrir bandaríska ferðamenn og stúdenta, þar sem þeim er meðal annars ráðlagt að drekka áfengi í hófi, aldrei láta drykkina sína úr augsýn og forðast að vera einir á ferli. Þá er fólki ráðlagt að kynna sér lögin á Spáni.

„Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi hafðu þá strax samband við 112 og gott er að hafa einnig samband við lögfræðing sem getur aðstoðað í gegnum kæruferlið og kynnt þér réttindi þín,“ segir í leiðbeiningunum.

Innanríkisráðuneytið á Spáni greindi nýlega frá því að stöðug aukning hefði verið á tilkynntum kynferðisbrotum á landsvísu síðustu ár. Leiðbeiningarnar til bandarískra ríkisborgara eru viðbrögð við þessari aukningu.

Leiðbeiningarnar voru birtar á netinu, en þar var tekið fram að bandarískir ríkisborgarar væru meðal þeirra sem tilkynnt hefðu um alvarleg kynferðisbrot. Í janúar tilkynntu til að mynda þrjár ungar bandarískar konur að brotið hefði verið á þeim kynferðislega í nýársfögnuði í borginni Murcia í suðurhluta Spánar.

Spænsk mannréttindasamtök sem gæta hagsmuna fórnarlamba kynferðisofbeldis segja að 73 hópnauðganir hafi verið tilkynntar árið 2019, árið 2018 hafi þær verið 60 en árið 2017 aðeins 14. Þannig að ljóst er að aukningin er gríðarleg.

Í nóvember síðastliðnum mótmæltu þúsundir víða á götum Spánar eftir að fimm menn voru sýknaðir af því að hafa hópnauðgað 14 ára stúlku á þeim forsendum að hún hefði verið of drukkin. Þeir voru þess í stað dæmdir fyrir að hafa misnotað hana kynferðislega, en hlutu fyrir vikið mun vægari dóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert