Ungur aðdáandi Sigur Rósar næsti forseti?

Pete Buttigieg er ungur af forsetaframbjóðanda að vera.
Pete Buttigieg er ungur af forsetaframbjóðanda að vera. AFP

Mun 38 ára gamall „drengur“ etja kappi við Donald Trump í haust um hvor þeirra verður kjörinn forseti Bandaríkjanna? Trump er í það minnsta langlíklegastur repúblikanna og þá varð Pete Buttigieg nokkuð óvænt efstur í forvali Demókrataflokksins í Iowa.

Vel er fylgst með þessu fyrsta ríki í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar en úrslit þar eru sögð góð vísbending um hver verður forsetaframbjóðandi flokksins, þótt vissulega eigi mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en það verður ljóst.

Vegna þess hve erfitt er að bera eftirnafnið fram er hann oft kallaður „Mayor Pete” eða Pétur borgarstjóri eins og það yrði á íslensku. Íslenskir stuðningsmenn kappans ræða málefni tengd honum á Facebook-síðunni „Stuðningsmenn Péturs borgarstjóra á Íslandi“.

Hér er myndskeið þar sem framburður Buttigieg er útskýrður:

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að það sé ekki hægt að bera eftirnafnið fram:

Þrátt fyrir að vera ekki orðinn fertugur og lítt þekktur meðal almennings í Bandaríkjunum áður en forvalið hófst hefur Buttigieg þótt líklegur kandídat í embætti forseta í nokkur ár. Barack Obama, fráfarandi forseti landsins, sagði í blaðaviðtali árið 2016 að Buttigieg lofaði góðu og þá hafa stuðningsmenn Buttigieg líkt honum við forsetann fyrrverandi.

Framboði Buttigieg hefur einnig verið líkt við framboð Obama árið 2008. Buttigieg sé að fara „Obama-leiðina“ en þar er átt við að hann hafi komið nokkuð óþekktur inn í forvalið, vinni sigur í Iowa-ríki og noti það sem stökkpall til frekari afreka.

Buttigieg var kjörinn borgarstjóri í borginni South Bend í Indiana-ríki 2011, þá 29 ára gamall. Hann varð þar með yngsti borgarstjórinn í borg þar sem íbúar eru fleiri en 100 þúsund (íbúar í South Bend eru 102 þúsund).

Aldur Buttigieg er töluvert til umfjöllunar en hann yrði fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem myndi taka við forsetaembættinu áður en hann verður fertugur. Nýr forseti, eða Donald Trump ef hann verður endurkjörinn, verður formlega settur í embætti 20. janúar á næsta ári. Daginn fyrir það heldur Buttigieg upp á 39 ára afmæli sitt en stóra spurningin er hvort stærsta veislan verði í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, þar sem afmælisbarnið fagni hækkandi aldri og því að vera orðinn valdamesti maður heims.

Eins og gefur að skilja nýtir „unglingurinn“ aldur sinn óspart í kosningabaráttunni. Það mætti í raun frekar kalla hann barn í þessari baráttu en helstu keppinautar hans um tilnefningu Demókrataflokksins eru mun eldri. Bernie Sanders er 78 ára, Joe Biden er 77 ára og Elizabeth Warren er sjötug.

Buttigieg og Bernie Sanders.
Buttigieg og Bernie Sanders. AFP

Buttigieg hefur enda bent á þetta en Sanders og Biden yrðu til að mynda rúmlega 80 ára þegar kjörtímabili þeirra í embætti forseta lyki, næðu þeir kjöri. Buttigieg spyr hvort fólk sé tilbúið að yfirgefa stjórnmál fortíðarinnar og gefur þar með í skyn að aðrir eldri frambjóðendur séu fortíðin en hann sé framtíðin.

„Bandaríkin eiga skilið forseta sem einblínir á að gera líf vinnandi fjölskyldna betra, ekki ríkustu eða stærstu fyrirtækjanna,“ sagði Buttigieg meðal annars á Twitter. Hann hefur sagt að Bandríkin hafi einn möguleika á að hafa betur gegn Donald Trump og að hann sé sá möguleiki.

Buttigieg yrði ekki eingöngu yngsti forseti Bandaríkjanna heldur yrði hann einnig fyrsti opinberlega samkynhneigði forsetinn. Buttigieg tilkynnti opinberlega að hann er samkynhneigður í júní 2015 og giftist eiginmanni sínum, Chasten Glezman, 16. júní 2018.

Buttigieg kom út úr skápnum rétt fyrir endurkjör sitt í South Bend en borgin þykir mjög íhaldssöm. Hann er duglegur að benda stuðningsmönnum sínum á að fólki er sama um kynhneigð annarra á meðan fólk sinnir starfinu vel.

Buttigieg og eiginmaður hans, Chasten Glezman.
Buttigieg og eiginmaður hans, Chasten Glezman. AFP

Kosningabarátta Buttigieg snýst meira um persónutöfra hans en einstök málefni. Hann er fylgjandi rétti kvenna til meðgöngurofs, segist munu láta Bandaríkin fylgja Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál ef hann nær kjöri, er ekki fylgjandi dauðarefsingum og vill afnema refsingar við minni háttar fíkniefnabrotum. Enn fremur hefur Buttigieg látið hafa eftir sér að það hafi verið rétt af félögum hans í Demókrataflokknum að ákæra Donald Trump forseta til embættismissis.

Hófsama miðjumanninum hefur verið hrósað fyrir herþjónustu sína og tungumálakunnáttu. Auk ensku kann hann eitthvað í spænsku, ítölsku, maltnesku, arabísku, persneska málið dari, frönsku og að lokum er hann sjálflærður í norsku.

Þrátt fyrir að Buttigieg kunni ekki íslensku, eða ekki enn, virðist hann aðdáandi íslenskrar tónlistar. Á kosningafundi í janúar var hann spurður nokkurra hraðaspurninga og ein þeirra var hvert væri síðasta lagið sem hann hefði hlustað á. Forsetaframbjóðandinn svaraði því til að um væri að ræða lag með Sigur Rós, án þess að nefna sérstaklega hvaða lag það var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert