Forsetarnir ræddu um kórónuveiruna

Xi Jinping, forseti Kína, og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Xi Jinping, forseti Kína, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta að Kínverjar hefðu fulla trú á því að þeir gætu stöðvað útbreiðslu kórónuveirunnar sem talin er hafa átt upp­tök sín í kín­versku borg­inni Wu­h­an. Forsetarnir ræddu saman í síma í morgun að kínverskum tíma.

636 hafa látist úr veirunni en flestir þeirra sem hafa látist og smitast eru frá Wuhan og öðrum stöðum í Hubei-héraði. Á meg­in­landi Kína eru staðfest 31.161 smit. 

Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum sagði Xi Trump að hann væri sannfærður um að faraldurinn hefði ekki slæm áhrif á efnahag landsins til lengri tíma. Auk þess væru aðgerðir stjórnvalda farnar að skila árangri. 

Greint var frá því í gær að læknirinn sem varaði al­menn­ing við nýju kór­ónu­veirunni í byrj­un þessa árs og hlaut viðvör­un fyr­ir vikið væri látinn. Mikil reiði hefur gripið um sig í Kína vegna þess en yfirvöld viðurkenna að viðbrögð þeirra við fyrstu fregnum af veirunni hafi ekki verið nógu góð.

Xi hvatti einnig bandarísk yfirvöld til að bregðast við útbreiðslu veirunnar af skynsemi. Trump sagðist hafa trú á aðgerðum kollega síns í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert