Kínverjar ævareiðir vegna andláts læknisins

Andlát kínverska læknisisn Li Wenliang, sem fyrstur varaði kollega sína við nýju kórónuveirunni og hlaut áminningu lögreglu fyrir, hefur valdið svo mikilli reiði meðal almennings í Kína að annað eins hefur varla sést, að því er segir í frétt BBC vegna málsins.

Li Wenliang lést af kórónuveirunni í gær eftir að hafa smitast af sjúklingi í Wuhan, þar sem veiran á upptök sín.

Hann sendi samstarfsfélögum sínum skilaboð í lok desember þar sem hann varaði þá við nýjum sjúkdómi sem líktist SARS-veirunni, banvænni kórónuveiru sem dró hundruð til bana á árunum 2002 til 2003. 

Li Wenliang var heimsóttur af lögreglu í kjölfarið og vinsamlegast beðinn um að hætta að fara með rangar staðreyndir og sætti rannsókn fyrir að koma af stað kjaftasögum.

Sorgin breyttist fljótlega í reiði

Kínverjar lýstu mikilli sorg á samfélagsmiðlinum Weibo þegar fregnir bárust af andláti hans í gær, en sorgin varð fljótt að reiði, en kínversk stjórnvöld viðurkenndu nýlega að hafa ekki brugðist rétt við þegar kórónuveirunnar varð vart og hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa reynt að halda henni leyndri fyrst um sinn.

Kínverjar eru stjórnvöldum reiðir fyrir að takmarka tjáningarfrelsi borgara sinna, en Li Wenliang hefur verið hylltur sem hetja fyrir að segja opinberlega frá veikindum sínum á Weibo, þvert á tilmæli stjórnvalda.

Á sjöunda hundrað manns hafa látist af nýju kórónuveirunni það sem af er árs, og yfir 30 þúsund eru smitaðir.

Umfjöllun BBC

Li Wenliang, læknir á sjúkrahúsi í borginni Wuhan í Kína, …
Li Wenliang, læknir á sjúkrahúsi í borginni Wuhan í Kína, varaði við útbreiðslu kórónuveirunnar á upphafsdögum hennar en var tekinn á teppið hjá yfirvöldum. Hann lést af veirunni í gær. Ljósmynd/Weibo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert